Stefnir í áföll?

Sjálfstæðisflokkurinn gæti orðið fyrir margskonar áföllum í komandi kosningum. Allt er lagt undir til að vinna borgina til baka eftir að hafa misst þar öll völd vorið 1994 að undanskildum þremur árum á kjörtímabilinu 2006 til 2010 þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var borgarstjóri og svo Hanna Birna Kristjánsdóttir um tíma.

 

Takist flokknum ekki að vinna borgina, yrði það áfall. Flokkurinn getur ekki náð embætti borgarstjóra nema fylgi hans og hinna tveggja ríkisstjórnarflokkanna skili samtals 12 borgarfulltrúum því stjórnarandstöðuflokkarnir eru ekki líklegir til að vilja vinna með flokknum. Ósennilegt er að það takist. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum gæti flokkurinn fengið 7 borgarfulltrúa, VG 2 en Framsókn engan, samtals 9. Gefum okkur að Framsókn nái inn manni án þess að taka hann frá D eða VG, þá væru það samt einungis 10 borgarfulltrúar. Eins og útlitið er núna, þá verður Sjálfstæðisflokkurinn áfram í stjórnarandstöðu og Dagur Eggertsson borgarstjóri áfram. Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, virðist alls ekki ná að höfða til kjósenda í Reykjavík.

 

Sjálfstæðisflokkurinn myndar meirihluta í Hafnarfirði með Bjartri framtíð. Líklegt er að sá meirihluti falli og að flokkarnir á miðju og til vinstri muni mynda meirihluta án Sjálfstæðisflokks. Staða flokksins í Reykjanesbæ er afar veik og ekkert sem bendir til þess að hann nái þeim árangri þar að komast í meirihluta eftir kosningar. Margrét Sanders sem leiðir listann þykir ekki líkleg til að höfða til kjósenda. Sama gildir um Akureyri. Þar er flokkurinn í minnihluta og margt bendir til þess að þannig verði það áfram.

 

Af stærri sveitarfélögunum er útlitið einungis mjög bjart hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og í Mosfellsbæ. Í þessum tveimur sveitarfélögum er flokkurinn í meirihlutasamstarfi undir forystu bæjarstjóra úr flokknum. Þeim hefur báðum gengið vel á kjörtímabilinu sem er að klárast.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur í Vestmannaeyjum síðast og hlaut um 70% atkvæða. Nú er kominn upp klofningur í Eyjum og kenna menn um hroka og ráðríki Elliða Vignissonar. Staða flokksins er engu að síður svo sterk í Vestmannaeyjum að enginn þarf að gera ráð fyrir að flokkurinn missi þar meirihluta.

 

Hins vegar eru menn ekki alveg rólegir í Garðabæ, einu helsta vígi flokksins sem einnig er heimabyggð formannsins Bjarna Benediktssonar. Tekist hefur að sameina nokkra flokka á bak við öflugan lista sem mun tryggja að atkvæði munu ekki falla dauð í sama mæli og í síðustu kosningum þegar Sjálfstæðisflokkurinn náði 7 mönnum af 11. Talið er að tvísýnt geti orðið um að Sjálfstæðisflokkurinn haldi sjötta manninum og þar með hreinum meirihluta. Ástæða þess er einkum sú að vaxandi þreytu gætir í bænum vegna stjórnunarhátta Sjálfstæðisflokksins sem þykja býsna einræðislegir á köflum.

 

Íbúafjöldinn á Seltjarnarnesi er svipaður og í Vestmannaeyjum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hreinan meirihluta á Nesinu frá öndverðu og hefur bærinn verið sterkasta vígi flokksins. Nú gæti það gerst að meirihluti flokksins falli en hann var tæpur í síðustu kosningum. Þá hlaut flokkurinn 4 bæjarfulltrúa, Samfylkingin 2 og Neslistinn 1. Viðreisn býður nú fram í samstarfi við Neslistann og er búist við mjög öflugum framboðslista. Eins og í Garðabæ gætir vaxandi þreytu vegna stjórnsýslu bæjarfulltrúa flokksins á Nesinu. Það á einkum við um Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra sem þykir ráðrík úr hófi og hagar sér eins og raunverulegur flokkseigandi. Hún hefur hlotið dóm fyrir einelti gagnvart starfsmanni sem hrakinn var úr embætti hjá bænum. Það telst bæjarstjóranum varla til framdráttar. Yfirbragð Sjálfstæðisflokksins á Nesinu er vægast sagt þreytt og allt eins víst að bæjarbúar geti hugsað sér að breyta til.

 

Almennt hefur staða Sjálfstæðisflokksins verið sterk í sveitarstjórnum, að Reykjavík undanskilinni. Það ræðst á næstu tveimur mánuðum hvort flokkurinn heldur sterkri stöðu í sveitarstjórnum eða verður fyrir áföllum.

 

Rtá.