Stefán konráðsson, afsakaðu meðan ég æli

Stefán Konráðsson, formaður Íþróttanefndar ríkisins, birti nú um helgina afar slepjulega grein í Morgunblaðinu um þá ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að láta næstu ríkisstjórn auka framlög til íþrótta í landinu um 100 milljónir á næsta ári.

Náttfari hefur fjallað um þetta og talað um að verið sé að lofa upp í ermi annarra sem er lítilmannlegt. Allir sjá að nú er hlaupið til í aðdraganda prófkjörs og kosninga til að reyna að afla óvinsælum ráðherrum vinsælda út á aukin framlög til íþrótta sem næsta ríkisstjórn þarf að útvega. Ríkisstjórn sem þeir munu væntanlega ekki eiga sæti í.

Stefán legst lágt í undirlægjuhætti sínum með fyrirsögn greinarinnar sem er persónugerð svona: Takk Illugi - takk ríkisstjórn.

Það er eins og Illugi Gunnarsson ætli að borga þessa auknu styrki úr eigin vasa!

Ríkisstyrkir til íþrótta hér á landi eru allt of rýrir. Um það er ekki deilt. Það hefði verið meiri stíll yfir því hjá ríkisstjórninni að hækka þessa styrki á fyrri hluta kjörtímabilsins og afla fjármunana sjálf í stað þess að kasta þessu fram sem ómerkilegri kosningabrellu sem næsta ríkisstjórn sér svo um að borga.

Svo er pöntuð hrósgrein hjá gagnrýnislausum viðhlæjanda, Stefáni Konráðssyni, fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Vonandi er Stefáni jafn bumbult og Náttfara.