Rokkarinn Stefán Jakobsson, oft kenndur við hljómsveitina Dimmu, er ekki sáttur við innanlandsflugið hjá Icelandair. Stefán lenti á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi eftir að hafa flogið þaðan frá Reykjavík.
„Nú flýg ég töluvert mikið og hef ágætis samanburð, ég flýg með þessu félagi og Erni. Og með þessu ágæta flugfélagi hér, Icelandair, þá eiginlega klikkar það aldrei að það er einhverskonar seinkun út af einhverjum andskota, alltaf, nánast alltaf,“ sagði Stefán, eða Stebbi Jak eins og hann er oftast kallaður, á Instagram-síðu sinni í gærkvöldi.
Stefán er augljóslega orðinn þreyttur á þessu enda notar hann innanlandsflugið töluvert til að ferðast á milli landshluta.
„Og meira að þegar búið var að seinka fluginu mínu einu sinni var seinkun eftir að ég kom á flugvöllinn. Svona til að hafa aðeins meiri seinkun. Það er orðið helvíti lélegt þegar það er orðið regla frekar en undantekning og maður reikni frekar með því að það sé seinkun eða einhver breyting eða eitthvað helvítis fokk,“ sagði Stefán og sendi Icelandair svo skýr skilaboð:
„Þetta er þjónustufyrirtæki og þetta má alveg fara að lagast. Þetta er komið gott, elsku Icelandair. Annars held ég með ykkur, það er gott að fljúga en þetta er leiðinlegt.“