Gestur Sjafnar Þórðar í sérþætti Heilsugæslunnar um COVID 19 var Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsgæslu höfuðborgarasvæðisins
Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði í sérþætti Heilsugæslunnar að heimsfaraldurinn sem við búum við í dag, Covid19, væri sannarlega mikil áskorun í ljósi þess að Heilsugæslan heldur úti mjög fjölbreyttri þjónustu. Má þar nefna að í fyrsta lagi rekur Heilsugæslan 19 starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, sinnir heimahjúkrun á stóru svæði innan höfuðborgarsvæðisins, sinnir heilsugæslu- og geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum, sinnir geðheilbrigðisþjónustu með geðheilbrigðisteymum víðs vegar um höfuborgina og svona má lengi telja.
Þetta væri fjölbreytt og mikil starfsemi með 700 starfsmönnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ef teknar eru með einkareknu einingarnar má telja að það séu um eitt þúsund starfsmenn sem eru að sinna þessari þjónustu í dag.
„Þessi mikla áskorun hefur haft gríðarleg áhrif á öllum þessum stöðum. Það er alveg ótrúlegt hvað breytingarnar hafa orðið miklar á stuttum tíma hjá okkur eins og nánast hjá öllum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, alls staðar á landinu og nánast um allan heiminn eins og staðan er í dag,“ sagði Óskar og bætti við að það hafi orðið miklar breytingar á starfseminni.
Óskar nefndi jafnframt að yfirvöld hér á landi hefðu tekið rétt á málunum, allar ákvarðanir hafi verið teknar á vandaðan og yfirvegaðan hátt og það sem væri einkennandi fyrir þennan faraldur að það væru faglegir stjórnendur sem stýra í brúnni. Átti hann þar við þríeykið, sóttvarnalækninn Þórólf Guðnason, Ölmu Möller Landlækni Víði Reynisson yfirlögregluþjón hjá Ríkislögreglustjóra.
„Þau hafa stóran her á bak við sig sem hafa unnið einstaklega faglega og vandlega að öllum málum og ég held að það sé hluti af því hversu vel okkur gengur. Það sést til dæmis í því að dánartíðnin per íbúa er sú tala sem gjarnan er notuð til að meta árangur, er lág hér,“ sagði Óskar.
Óskar sagði að allt þetta sem væri verið að gera snúist um að bjarga mannslífum, huga að þeim sem eldri eru, þeim sem eru viðkvæmari og þeim sem minna mega sín og tryggja að þeir sýkist ekki því að þeir fara verst út úr því. Aðspurður telur Óskar að tala smitaðra haldi áfram að hækka næstu tvær vikurnar en í framhaldi fari að draga úr smitum.
Hann er hins vegar á því að þá taki við aðrar áskoranir sem hann hefur miklar áhyggjur af. Nefndi hann atvinnuleysi, sem er mikið áhyggjuefni eins og staðan er í dag, félagslega einangrun, menntamálin, félagsmálin og býst fastlega við að öll ráðuneytin muni þurfa að bregðast við nýjum áskorunum þegar fram í sækir.
Í ljósi breyttra tíma vegna COVID19 hefur nálgun fólks að heilsugæslunni breyst, öllum er þó sinnt en með öðrum hætti. Áður var það svo að allir gátu mætt og fengið tíma en í ljósi ástandsins hafa orðið breytingar á þjónustunni. Núna er síminn aðalsamskiptaleiðin og allir hafa aðgang að því að panta símatíma.
Óskar sagði að sú þjónusta væri til staðar allan sólarhringinn, þar sem fólk gæti hringt á sína heilsugæsla á dagvinnutíma og bókað tíma og í símanúmerið 1700 eftir dagvinnutíma.
Einnig væri í boði netspjall í gegnum síðu sem heitir Heilsuvera sem er opið allan sólarhringinn auk þess sem þar er að finna fjöldann allan af upplýsingum og leiðbeiningum meðal annars um Covid19. Að sögn Óskars er mikil fjölgun þeirra sem nýta sér þessar nýju samskiptaleiðir og verkefnum innan heilsugæslunnar hafi fjölgað um 40%, það er að segja 40% aukning samskipta á þessu tímabili sem er gríðarleg aukning.
Mikilvægt er að vernda heilbrigðisstarfsfólk og þessar breyttu samskiptaleiðir eru aðgerðir gegn því.
Sjöfn og Óskar ræddu um væntingar Óskars á þróuninni á Covid19 næstu daga og sagði Óskar að sínar væntingar væru þær að hér á landi næðum við að halda í þessa áætlun sem búið er að setja með mögulega bestu spá, að það verði tiltölulega fáir sem veikjast og okkur takist að vernda þá sem eru viðkvæmari og þá sem eru eldri en erum undirbúin undir það verra.