Staða Vilhjálms í Suðurkjördæmi er vænleg eftir að Páll hættir við

Mörgum kom hreint ekki á óvart að Páll Magnússon hefði ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri sem þingmaður. Það stefnir í átök innan Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í komandi prófkjöri og Páll vill ekki taka þátt í þeim leðjuslag.

Hann kom sá og sigraði fyrir fimm árum og gengur nú af sviðinu beinn í baki. Fyrir kosningarnar 2016 bauð hann sig fram í prófkjöri flokksins og felldi sitjandi iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, með svo afgerandi hætti að hún lenti í fjórða sæti og hrökklaðist út úr stjórnmálum á besta aldri.

Ragnheiður Elín hafði fengið mikil og góð tækifæri innan flokksins en nýtti þau ekki vel. Því fór sem fór þegar flokksmenn tóku Pál fram yfir hana í prófkjöri.

Vilhjálmur Árnason hefur þegar boðið sig fram í fyrsta sæti listans og lýst því yfir að hann sækist eftir forystunni til að tryggja kynslóðaskipti í kjördæminu. Hann er 38 ára að aldri og hefur setið á Alþingi í níu ár.

Vilhjálmur er því kominn með góða þingreynslu og ætti að yngja ásýnd forystu flokksins heilmikið verði honum treyst fyrir fyrsta sætinu.

Það styrkir Vilhjálm einnig mikið í baráttunni að hann býr í Grindavík en helmingur íbúa kjördæmisins er á Suðurnesjum. Þá þykir það geta skipt miklu máli að hann og Ásmundur Friðriksson, sem sækist eftir að halda öðru sæti listans, eru taldir styðja hver annan eftir gott og farsælt samstarf á þingi um árabil.

Guðrún Hafsteinsdóttir úr Hveragerði hefur einnig gefið kost á sér í fyrsta sæti listans en hún hefur enga stjórnmálareynslu. Það veikir stöðu hennar og eins hitt að hún hefur engin sýnileg tengsl á Suðurnesjum þar sem helmingur kjósenda býr.

Þegar nú Páll Magnússon hverfur nú af sviðinu bendir margt til þess að Suðurnesjamaðurinn Vilhjálmur Árnason taki við leiðtogahlutverki Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.