Spurning um verðmiða á ísland

Niðurstaðan af heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands er skýr: Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur hvort tveggja skýra stefnu og ákveðin markmið með endurnýjuðum samskiptum við Ísland. Ríkisstjórn Íslands hefur á hinn bóginn enga hugmynd um hver markmið hennar eru eða vill ekki gera þau opinber.

Forsætisráðherra steig þó skref í rétta átt þegar hún lýsti þeirri skoðun sinni að loftslagsbreytingar væru mesta ógnin við öryggi landsins á norðurslóðum. En hún virðist samt ekki hafa tengt þetta viðhorf við nein markmið eða skilyrði af Íslands hálfu í þeim viðræðum sem hafnar eru.

Bandaríkin virðast tengja viðræður um viðskipti og varnir

Bandaríkin ætla sér aukna hernaðarlega viðveru hér og bjóða samhliða fram samráð um efnahagsmál. Varaforsetinn fór ekki leynt með að stjórn hans tengir þessi tvö mál saman.

Engu er líkara en hann líti á efnahagssamráðið sem aðferð til að setja verðmiða á nýja hernaðarlega aðstöðu á Íslandi til að styrkja móthald Bandaríkjanna við Kína. Ekkert hefur komið fram um að aukin viðvera Bandaríkjanna hér sé vegna nýrrar hernaðarlegrar ógnar er steðji að Íslandi.

Þegar svokölluð Aronska blossaði upp á sínum tíma gaf Geir Hallgrímsson forsætisráðherra afdráttarlausa yfirlýsingu um að verðmiði yrði aldrei settur á Ísland í samskiptum við Bandaríkin í varnarmálum. Engin viðhorf af þessu tagi virðast hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar í gær.

Ekki er ástæða til að ætla að ríkisstjórnin hyggist kyngja því að þessi mál verði samtengd og því síður að hún muni viðurkenna verðmiða á Ísland. En heimsókn varaforsetans kallar á að hún skýri út fyrir fólkinu í landinu hvernig hún ætlar að koma í veg fyrir það þegar Bandaríkjastjórn tengir þetta tvennt saman með svo augljósum hætti.

Fríverslunarsamningur er áhugaverður kostur

Í fyrsta skipti í gær var frá því greint að efnahagssamráðið gæti leitt til fríverslunarsamnings. Það er sannarlega mjög áhugaverður kostur fyrir Ísland. Aðalatriðið er þó að slíkir samningar séu gerðir óháð varnarráðstöfunum Bandaríkjanna vegna Kína.

Fram til þessa hafa Bandaríkin ekki gert slíka samninga nema þeir taki til fríverslunar með landbúnaðarafurðir. Ekkert hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort hún mun fara fram á undanþágu frá þessari meginreglu í þeim viðræðum sem framundan eru.

Spurningin er: Þarf Alþingi ekki að koma að stefnumótun í þessum viðræðum um efnahagssamráð og gerð fríverslunarsamnings?

Hafi ríkisstjórnin ekki strik til að sigla eftir þarf Alþingi að setja það

Einn af þingmönnum VG hefur greint frá því að  forgangsmál VG á komandi þingi verði að færa ýmsar ákvarðanir í varnarmálum sem nú eru á höndum utanríkisráðherra til Alþingis. Þar til annað kemur á daginn verður að líta svo á að þetta forgangsmál forystuflokks ríkisstjórnarinnar sé flutt í samráði við utanríkisráðherra. Það lýsir óvenju miklu trausti og sterkri samheldni milli stjórnarflokkanna.

Þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen var á síðustu metrunum var gerð svipuð tilraun til að taka hluta stóriðjumálanna frá Hjörleifi Guttormssyni iðnaðarráðherra og færa inn til Alþingis. Almennt var litið á það sem vantraust. En tímarnir breytast.

Hafa verður í huga að ríkisstjórnin er mynduð um óbreytt ástand. Það liggur því í eðli samstarfsins að hún getur illa komið sér saman um að móta nýja stefnu til að mæta nýjum áskorunum. Þetta á alveg sérstaklega við í utanríkis- og varnarmálum. Í því ljósi gæti þetta forgangsmál forystuflokks ríkisstjórnarinnar verið skoðunarvert.

Ef ríkisstjórnin hefur ekki strik til að sigla eftir þarf Alþingi að setja það.