Aukning í breiðþotuflugi til keflavíkur

Blað verður brotið í íslenskri flugsögu í sumar en eftir nokkrar vikur munu fimm breiðþotur koma til landsins í flota Icelandair og WOW air og fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli.

Aldrei áður hefur sú staða verið uppi í flugsamgöngum landsmanna.
Aðeins hafa meðalstórar farþegaþotur flogið um Keflavík eftir því sem fram kemur á vefnum alltumflug.is og hafa Boeing 757 vélar Icelandair og Delta og Airbus A321 vélar WOW air og fleiri evrópskra flugfélaga verið þær stærstu sem hafa flogið um Keflavíkurflugvöll hingað til.

Í mars í fyrra tilkynnti Icelandair að tvær breiðþotur af gerðinni Boeing 767-300ER myndu bætast við flota félagsins. 8 mánuðum síðar tilkynnti WOW air tvo nýja áfangastaði í Kaliforníu, Los Angeles og San Francisco og á sama tíma var greint frá því að félagið myndi taka í notkun þrjár nýjar Airbus A330-300 vélar.

Báðar Boeing 767 breiðþoturnar hafa sl. vikur gengist í gegnum viðamikla yfirhalningu þar sem skipt hefur verið um innréttingar og nýjum sætum komið fyrir um borð ásamt skemmtikerfi en þær fóru báðar utan til Xiamen í Kína þar sem hluti yfirhalningarninnar fór fram en önnur þeirra er komin til landins.

Báðar vélarnar munu hefja áætlunarflug í maí en þær munu koma með vænglingum („winglets“). Þá mun breiðþotunum fjölga enn frekar þegar þrjár Airbus A330 vélar WOW air munu bætast við í flóruna.

Seinkun hefur orðið á komu TF-GAY en hún er væntanlega ti landsins á næstu dögum ásamt hinum Airbus A330-300 vélunum tveimur.

Verið er að undirbúa stæði fyrir vélarnar á Keflavíkurflugvelli en hingað til hafa stæði 7 og 12 geta tekið við breiðþotum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eins og er eftir því sem fram kemur á flugvefnum.