Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi eru alls ekki einhuga um núverandi meirihlutasamstarf með Framsókn. Talið er að soðið geti upp úr á næstu mánuðum.
Ármann bæjarstjóri vildi starfa áfram með Theódóru og félögum sem fengu 2 menn kjörna á sameiginlegum lista BF og Viðreisnar. En þrír af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks tóku það ekki í mál. Fyrir þeim hópi fer Karen Halldórsdóttir (Jónssonar áður í Steypustöðinni).
Þremenningarnir neyddu Ármann til að mynda meirihluta með Framsókn sem hefur einn fulltrúa, Birki Jón Jónsson, en flokkurinn tapaði miklu fylgi í kosningunum. Þetta samstarf minnir á ástlaust hjónaband enda er talið ólíklegt að það endist nema í nokkra mánuði enn.
Illt andrúmsloft er innan hóps þessara 5 bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Hjördís Johnson, mágkona Guðlaugs Þórs ráðherra, stendur alveg með Ármanni en hin þrjú eru í fýlu út í hann og eru sögð íhuga að sprengja meirihlutann til að ýta Ármanni úr embætti bæjarstjóra.
Ástandið er sagt rafmagnað og glöggir þykjast greina fingraför Gunnars Birgissonar sem hatast við Ármann eftir að hafa tapað fyrir honum í valdabaráttu um Kópavog.
En hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir utan óbreytt ástand í ástlausum meirihluta?
Þessi þrjú geta klofið flokkinn og myndað meirihluta með Framsókn og Samfylkingu. Samtals 6 af 11 bæjarfulltrúum.
Ármann getur einnig klofið og myndað meirihluta með Theódóru, Einari og Samfylkingu. Samtals 6 af 11.
Svo geta núverandi minnihlutaflokkar einnig myndað meirihluta ef þeir fá Framsókn með og bjóða Birki Jóni bæjarstjórastólinn.
Rtá.