Sprengiframboð mælast alltaf með mest fyrst – leiðin liggur nú niður hjá m-listanum

Fylgið sem framboð Sigmundar Davíðs mældist með í könnun MMR hlýtur að vera þeim M-listamönnum mikið áfall. Fylgi þeirra var talið vera 7,3% eftir að fréttir af framboðinu höfðu tröllriðið öllum fréttatímum fjölmiðla alla vikuna. Sigmundur Davíð átti sviðið í fjóra daga samfleytt og það skilaði ekki meiri stuðningi.

 

Þegar Albert Guðmundsson klauf sig út úr Sjálfstæðisflokknum vorið 1987, nokkrum vikum fyrir kosningar, þá mældist fylgi Borgaraflokks hans nær 30% strax á eftir. Síðan lá leiðin stöðugt niður. Flokkurinn hlaut 11% atkvæða í kosningunum mánuði síðar og þótti það vera mjög góður árangur.

 

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir klauf sig út úr Alþýðuflokknum og stofnaði nýjan flokk, þá var flokkur hennar talinn njóta fylgis meira en 20% kjósenda í fyrstu skoðanakönnun eftir stofnun flokksins. Í kosningunum nokkrum vikum síðar náði flokkurinn 7% atkvæða og kom fjórum mönnum á þing.

 

Lilja Mósesdóttir sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í febrúar 2012 og boðaði flokksstofnun. Í fyrstu skoðanakönnun eftir það mældist nýtt framboð hennar með 21,3% atkvæða og 14 þingmenn. Vinstri grænir mældust í sömu könnun með 8% fylgi og 5 þingmenn.

 

Miðað við þessar sögulegu staðreyndir er niðurstaða M-listans úr fyrstu skoðanakönnun eftir klofninginn mjög veik fyrir flokkinn. Ætla má að 7,3% núna muni ekki skila framboði Sigmundar Davíðs nægilegu fylgi til að fá fulltrúa kjörna á Alþingi Íslendinga.

 

Miðflokkurinn, sem reyndar er lengst til hægri í hinu pólitíska litrófi, er andvana fæddur.

 

 

Rtá.