Búið er að planta Vilhjálmi Bjarnasyni í óþarft og óljóst verkefni í Seðlabanka Íslands. Stundin.isgreinir frá þessu. Starfið var ekki auglýst eins og lögboðið er, heldur búið til fyrir þennan fallna þingmann Sjálfstæðisflokksins. Hann er titlaður “verkefnastjóri” eins og algengt er þegar engin marktæk verkefni bíða bitlingaþegans.
Flokkurinn hefur áður útvegað Vilhjálmi stjórnarsæti í þeirri óþörfu stofnun Bankasýslu ríkisins. Þessir tveir bitlingar munu tryggja hinum fallna þingmanni Sjálfstæðisflokksins á aðra milljón í tekjur á mánuði.
Í síðustu kosningum tapaði Sjálfstæðisflokkurinn fimm þingsætum. Nú er búið að tryggja afkomu alla vega fjögurra þeirra með embættum og bitlingum: Valgerður Gunnarsdóttir féll í NAustur kjördæmi. Nú er búið að skipa hana skólastjóra. Hildur Sverrisdóttir féll í Reykjavík. Hún fékk starf aðstoðarkonu Iðnaðarráðherra. Unnur Brá féll í Suðurkjördæmi og fékk strax bitlinga. Hún er “verkefnastjóri” vegna stjórnarskrárinnar. Á trúlega að gæta þess að ekkert breytist. Þá er hún formaður samninganefndar um breytingar á búvörusamningi. Á trúlega að tryggja að meiri skattpeningum verði mokað í botnlausu landbúnaðarhítina.
Og nú er búið að redda Villa sem féll í kjördæmi formanns flokksins. Sá fimmti sem féll út af þingi heitir Teitur Björn Einarsson og féll í NVestur kjördæmi. Ekki hafa borist fréttir af því að honum hafi verið fundinn viðeigandi bitlingur. En það hlýtur að lagast!
Með þessu sýnir Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný sitt rétta andlit - afmyndað af spillingu og sukki með almannafé.
Rtá.