Spennuvika framundan

Felstir eru sammála um að framundan sé vika mikillar spennu í stjórnmálum. Fyrir liggur að fjöldi óákveðinna er meiri en áður hefur sést viku fyrir kosningar. Kjósendur eru enn að hugsa sig um enda eru kostirnir margir.
 
Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem Morgunblaðið birti fyrir helgina er staðan ógnvekjandi að margra mati í ljósi þess mikla stuðnings sem Píratar njóta og VG einnig.
 
Sitthvað ber þó að hafa í huga áður en of miklar ályktanir eru dregnar. Úrtakið er 2.300, svarhlutfall 59.4% og þar af tóku 81.2% afstöðu. Það segir okkur að einungis 48.1% úrtaksins tók afstöðu. Hlutfalla óákveðinna og þeirra sem svara ekki er því meira en helmingur. Bara það eitt segir að úrslit kosninganna eru hvergi ráðin. Þá er á það bent að Gallup er ávalt með stærra úrtak, milli 3 og 4 þúsund. Margir vilja helst ekki taka mark á öðrum skoðanakönnunum en Gallup.
 
Samkvæmt umræddri könnun skiptast þingsæti svona: Sjálfstæðisflokkur og Píratar 15 hvor, VG 13, Viðreisn 6, Framsókn 6, Björt framtíð 4 og Samfylking 4.
 
Mikilvægt er að velta fyrir sér eftirtöldum atriðum til að leggja mat á endanleg úrslit kosninganna:
 
1.  Um helmingur kjósenda er óákveðinn viku fyrir kjördag.
2.  Bæði Samfylking og Björt framtíð eru nærri því að lenda undir lágmarsfylgi til að fá menn kjörna.
3.  Píratar mælast með mikið fylgi meðal ungs fólks sem skilar sér yfirleitt verr á kjörstað en hinir eldri. 
4.  Þessu er þveröfugt farið hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Eldri kjósendur þeirra skila sér vel.
5.  Svo hátt hlutfall vinstri kjósenda í umræddri könnun veldur ugg. Gæti snúið fylgisþróun við.
6.  Tal um myndun vinstri stjórnar fyrir kosningar gæti reynst hættuspil og gefið öðrum flokkum byr.
7.  VG hafa rekið kosningabaráttu þar sem Steingrímur J. er falinn enda óvinsæll. Á þetta verður bent.
8.  Sporin frá vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms hræða. Það verður rifjað upp á lokasprettinum.
9.  Viðreisn er nýr flokkur sem verður sýnilegri með hverjum deginum sem líður.
 
Í ljósi alls þessa treystir Náttfari sér til að spá um niðurstöðu kosninganna hvað varðar skiptingu þingsæta:
 
Sjálfstæðisflokkur fær 16 þingmenn, Píratar og VG 12 þingmenn hvor flokkur, Viðreisn fær 9 þingmenn, Framsókn 8 og Björt framtíð 6. Önnur framboð fá ekki mann kjörinn. Með því fellur Samfylkingin út af Alþingi.
 
Verði niðurstaða kosninganna þessi, þá liggja fyrir ýmsir möguleikar til myndunar þriggja flokka stjórnar.