Uppskrift: Sörubakstur með Alberti Eiríkissyni sælkera og gleðigjafa

Í aðventunni er lag að huga að gæðastundum með sínum uppáhalds og njóta.   Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, baka og líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum. 

Sjöfn Þórðar heimsótti á dögunum Albert Eiríksson matar- og sælkerabloggara með meiru og fékk hann til að ljóstra upp leyndarmálinum sínu bak við Sörubaksturinn. Albert kann svo sannarlega að njóta og það er upplifun að fá að baka með honum þessar himnesku hátíðar Sörur sem bráðna í munni og setja svip sinn á veisluborð.

„Þegar ég er í sérstaklega miklu jólabakstursstuði þá tekur mig þrjá daga að útbúa Sörurnar, fyrsta daginn eru botnarnir bakaðir og frystir. Þann næsta útbý ég kremið og set á botnana og frysti og þriðja daginn er þeim dýft í súkkulaðið en þetta er eflaust einhver bilun. Satt best að segja er alveg nauðsynlegt kökurnar séu munnbitastórar, frekar slæmt að þurfa að bíta í kökuna og kremið frussast í allar áttir,“ segir Albert og glottir.  En við gerum undantekningu í þetta skiptið og förum gegnum alla ferlana og njótum þess að smakka um leið,“ segir Albert og brosir sínu breiðasta.

Einnig fer Albert aðeins yfir söguna bak við Sörurnar.  „Sörurnar eru kenndar við franska leikkonu að nafni Sarah Bernhardt (1844-1923)  og það merkilega er, að það ekki er vitað til þess að hún hafi sjálf bakað kökurnar frægu en eflaust hefur hún smakkað þær. Fyrstu Sörurnar munu hafa verið bakaðar í Hollandi seint á nítjándu öld samkvæmt mínum heimildum.“ 

Hér kemur uppskriftin hans Alberts sælkera með meira af hinum frægu og föngulegu Sörum:

Sörur

Botn

5 eggjahvítur

3 ½ dl flórsykur

400 g möndlumjöl

Krem

¾  dl sykur

1 ½ dl vatn

5 eggjarauður

300 g smjör

1 msk. kakó

1 ½  tsk .Neskaffiduft

1/3 tsk. salt

Súkkulaðihjúpur

250 g dökkt gott súkkulaði

Fyrst er botninn gerður.  Þeytið mjög vel eggjahvítur og flórsykur, setjið möndlumjöl varlega út í. Setjið á plötu með teskeið, hafið kökurnar litlar, ca 1/2 – 2/3 tsk passlegt í eina köku. Bakið við 180° heitum ofni í 7-10 mínútur. Kælið kökurnar vel eða frystið áður en kremið fer á þær.

Næst er það kremið.  Sjóðið saman sykkur og vatn í um 10 mínútur, kælið. Þeytið eggjarauður og hellið sykurvatninu saman við í mjórri bunu. Bætið við smjöri, kakói, Neskaffi og salti. Setjið kremið í rjómasprautu með engum stút á, sprautið á kökurnar og kælið vel eða frystið.

Að síðustu er það súkkulaðihjúpurinn.  Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og dýfið kökunum í og hyljið kremið en ekki botninn. Geymið kökurnar í kæli eða frysti.

Gleðilega aðventu og munið að njóta augnabliksins.