Miklar umræður hafa síðasta sólahring farið fram á samfélagsmiðlum um áherslur Fréttablaðsins í gær. Á forsíðu var slegið upp að almenningsálit mætti ekki ráða för í dómsmálum. Er þar vitnað til ítarlegs viðtals í blaðinu við Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómara og hafa ummælin sem dæmi skapað nokkra úlfúð á samfélagsmiðlum sem tengist því sem gerðist fyrr í vikunni.
Jón Steinar gagnrýnir í blaðinu Hæstarétt harðlega. Verður ekki annað skilið af ummælum hans en að hagsmunir réttarríkisins séu að engu hafðir í málum bankamanna sem hafa fengið þunga refsidóma. Römmun (e: framing) blaðsins í málinu hefur verið tengd við umdeilt viðtal við þrjá ríka fanga hjá öðrum miðli 365 í vikunni, sem og fyrri leiðaraskrifum Kristínar Þorsteinsdóttur útgáfustjóra Fréttablaðsins. Kristín hefur ítrekað haldið hinu sama fram og Jón Steinar í blaði dagsins og skoðanir eiginkonu eins fanganna hafa orðið að forsíðufrétt. Mörgum þótti afhjúpandi þegar Kristín skrifaði: \"Nú taka fjölmiðlar við,\" eftir að dómur hafði verið felldur yfir bankamanni og var hún ósátt við dómsniðurstöðuna. Tengsl, hagsmunir og eignarhald hjá forráðamönnum 365 vekja spurningar um faglega hlutlæga fjölmiðlun 365 eða hagsmunabundið erindi helstu ráðamanna fjölmiðlasamsteypunnar.
Jafnan er það svo að ef kollegi blaðamanna veltir upp svona spurningum verða óbreyttir blaða- og fréttamenn þeirrar samsteypu sem spurt er spurninga um, afar sárir og telja að viðkomandi sé að svíkja lit og grafa undan almennri tiltrú almennings á blaðamennsku. Með svona umræðu dytti þeim sem hér skrifar þó aldrei í hug að halda fram að blaðamenn séu almennt til sölu. Gott er að nefna til sögunnar, af því að umræðan um viðtalið við Fangana þrjá á Kvíabryggju vakti víða þá spurningu hvort fréttamaðurinn hefði selt sig eða ekki (sem hann Þorbjörn Þórðarson er svo sannarlegur ekki þekktur fyrir). En í þessu ljósi er ágætt að minna á að rannsóknir sýna að blaða- og fréttamenn telja sig oft sjálfstæða í vinnubrögðum sínum þótt þeir fái leiðsögn að ofan, oft tengt ritstjórnar- eða eigendavaldi. Hvaðan hugmyndir að fréttum koma skiptir miklu. Undirmenn eru ólíklegir til að hafna beiðni yfirmanna um að setja mál á dagskrá, það gæti hreinlega kostað þá vinnuna. Þá kunna efnistök blaðamanna ómeðvitað að draga dám af þeim áherslum sem blaða- og fréttamenn vita að einkennir skoðanir yfirmanna og eigenda. Þannig er engri sérstakri rýrð kastað á óbreytta blaðamenn þótt efnistök og hliðvarsla fjölmiðla séu til skoðunar í eins stóru máli og uppgjöri íslensku þjóðarinnar við íslenska efnahagshrunið og varðar lokahnykkinn, dómsvaldið, ábyrgð, sekt og sakleysi.
Dómar Hæstaréttar hafa verið skýrir og þungir. Hæstiréttur telur að sumir fyrrum bankamenn landsins hafi átt veigamikinn þátt í þeirri saknæmu starfsemi sem hefur orðið til þess að drjúgur hluti þjóðarinnar var við hungurmörk um skeið eftir hrun. Að halda því fram að Hæstiréttur sé líklegri til að miða dóma sína við reiðan og blóðþyrstan almenning fremur en hagsmuni hástéttarinnar, sem bankamenn eru augljóslega hluti af, er fremur langsótt. Dómasagan í tímans rás gæti sýnt fam á aðra niðurstöðu og reyndar sýna sumar ransóknir í afbrotafræði fram á að hvítflibbum og betri borgurum sé fremur hlíft af hálfu dómstóla heldur en þegar um ræðir fólk úr öðrum stéttum.
Þess vegna var gott hjá Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur í gær að benda á vegna fyrirsagnar Fréttablaðsins í gær um að „almenningsálitið megi ekki ráða för“ í Hæstarétti, að níu af ellefu dómurum Hæstaréttar séu karlar. Sex af þeim á sjötugsaldri og algengasta fæðingarárið í hópnum 1954. Allir dómararnir séu hvítir á hörund og gagnkynhneigðir.
„Á hinn bóginn samanstendur almenningur af körlum og konum nokkurnveginn til jafns. Meðal almennings er fólk afólíkum kynþáttum, þar má finna sam-, tví- og pankynhneigt fólk, þar eru fatlaðir og innflytjendur og trans fólk og kynsegin fólk. Almenningur er með mismunandi trúarbakgrunn og lífsgildi og býr yfir gríðarlegri breidd hvað snertir reynsluheim og mannlegan fjölbreytileika. Ég tel ekki að vandamálið felist í að almenningsálitið ráði för í Hæstarétti – þvert á móti tel ég að Hæstiréttur þyrfti fleira fólk sem endurspeglar almenning. Einsleitni innan stofnana er ávísun á einsleitni í niðurstöðum þeirra,“ skrifar Þórdís.
Minna má á í þessu samhengi að í landi hinna klikkuðu karlmanna eins og Andri Snær kallaði það var mikil kynlæg slagsíða hvað varðar gerendur í aðdraganda hrunsins. Það voru karlar en ekki konur sem brutu hér allt og brömluðu.
Vegna viðtalsins við Jón Steinar má spyrja: Ef einsleitnin er vandamál er þá ekki fremur ólíklegt að bankamenn séu sérstök fórnarlömb almenningsálits? Mætti fremur spyrja hvort sannir almannahagsmunir gjaldi ekki iðulega fyrir einsleita samsetningu Hæstaréttar, þar sem karllægir elítuhagsmunir séu vigtaðir þyngra en almannahagsmunir beggja kynja?
Sorrý, Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, en álit hvaða almennings ertu að tala um? Álit dæmdra bankamanna eða álit hins sauðsvarta almúga? Ég spyr vegna þess að ekki er vitað til að almúginn eigi sér að jafnaði sérstaka áróðursmenn innan Hæstaréttar heldur frekar blessuðu hvítflibbarnir ef eitthvað. Í þessu ljósi gæti verið ágætt ef Jón Steinar myndi skýra mál sitt nánar eða ef Fréttablaðið myndi spyrja hann þessarar spurningar næst þegar blaðið ákveður forsíðuuppslátt.
Gleymum því heldur ekki að stundum kjósa eigendur fjölmiðla að tapa fé á fjölmiðlun til að geta gætt hagsmuna sinna á öðrum sviðum - líta má á það sem áhrifa- og markaðskostnað - nema almenningur sjái í gegnum plottið. Og besta leiðin til þess er að vera vakandi, gagnrýna fjölmiðla og spyrja spurninga eins og Helgi Gunnlaugson afbrotafræðingur benti nýverið á í viðtali við Hringbraut.
(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)