Áður en lengra er haldið skulum við horfa á þetta stutta myndskeið hér fyrir neðan.
Það tekur enga stund.
Síðan skulum við halda áfram:
Jæja, gott og vel. Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson vinur minn og Bjarni Svanur Friðsteinsson unnu þrekvirki þegar þeir ferðuðust til Grikklands í sumar á vegum Hringbrautar og fóru í nokkrar flóttamannabúðir í Grikklandi þar sem ástandið er skelfilegt. Í einum búðunum sem hannaðar voru fyrir 600 manns voru 1.500 og helmingurinn börn. Þar búa t.d. nokkrar fjölskyldu saman í litlum gámum.
Þangað höfum við sent börn og fullorðna sem hafa viljað setjast að hér á landi. Á þessu ári höfum við neitað 156 börnum um hæli hér á landi. Á sama tíma hefur fólk hér á landi, sem finnst sjálfsagt að þeirra eigin mannréttindi séu virt, þá skoðun að flóttafólk eigi ekki rétt á mannréttindum. Þá segja sumir að fyrst eigum við að hjálpa fátækum Íslendingum en flóttamönnum og hælisleitendum. Þetta viðhorf er sorglegt og hryllilegt. Það er vel hægt að gera bæði.
En þetta hefur allt gerst áður. Líkt og Andri Snær Magnason rithöfundur segir í viðtali í þættinum:
„Seinni heimsstyrjöldin hefur kennt okkur að allir sem flúðu sem fóru eitthvert urðu að nýtum samfélagsþegnum. Fólkið sem kom hingað varð að meira en nýtum samfélagsþegnum. Við ættum varla sinfóníuna og margt sem fólk kom með hingað sem flúði.“
Þá segir Bjartmar í lok þáttarins en stutt myndskeið, sem enginn ætti að missa af, má sjá hér fyrir neðan. Bjartmar segir:
„Þetta er ekki í fyrsta sinn í mannkynssögunni sem við stöndum frammi fyrir neyð fólks á flótta. Fyrir rúmum 80 árum flúðu tugþúsundir gyðinga undan ofsóknum Nasista. Reyndu jafnvel margir að koma til Íslands. Var þeim langflestum neitað um að koma til landsins. Í dagblaðinu Tímanum árið 1939 var skrifuð grein um flóttamannavandann í Evrópu á þeim tíma. Lýsir það vel hugarfarinu sem þá var uppi. Það hugarfar heyrist jafnvel enn í dag 80 árum seinna.“
Í Tímanum sagði:
„Um það geta vissulega allir verið sammála að þýsku Gyðingarnir hafa fulla þörf fyrir hjálp. Alveg sérstaklega gildir þetta um börnin, sem verst þola erfiðleikana og hafa minnstu getu til að bjarga sér. En hins verður jafnframt að minnast, að möguleikar okkar til aðstoðar eru þeim takmörkum bundnir, að hjálpin verði ekki á kostnað þeirra einstaklinga hjá okkur, sem ekki eru síður þurfandi fyrir aðstoð. Þótt það sé gott og göfugmannlegt að hjálpa útlendu fólki, stendur hitt samt vafalaust nær, að hjálpa fyrst þeim, sem eru þess þurfandi hér.“
Kunnuglegt, ekki satt?