Sólveg Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason gerast sekan um andlegt ofbeldi fyrir að kalla hana ítrekað strengjabrúðu karlmanna.
„Fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallar mig á vefsíðu sinni enn á ný "strengjabrúðu" tveggja karlmanna. Áður hefur hann að ég sé "gerð út" af þessum sömu mönnum,“ skrifar Sólveig Anna á Facebook síðu sinni.
Formaðurinn lýsti því næst öllu sem hún hefur áorkað og gengið í gegnum um ævina. Sólveig Anna segir reynslu sína af sjálfstæði vera ástæðu þess að það skipti hana máli að vita að skoðanir hennar komi frá henni sjálfri og byggist á upplýstri afstöðu.
„Ég hugsaði um hvað það er undarlegt að þrátt fyrir mína lifuðu ævi skuli ég samt í augum sumra manna ekki vera neitt nema strengjabrúða, gerð út af karlmönnum.“
Orðræða kúgara
Sólveig Anna viðurkenndi að hluti af henni yrði dapur þegar slík orð væru notuð. „Einhver konu-partur sem hugsar um konur sem hafa lifað, gert, sagt, hugsað en samt aldrei fengið að verða neitt annað en "strengjabrúður" í hugum valdamikilla manna,“ bætti hún við.
„Þessi konu-partur veit og viðurkennir að svona orðfæri er andlegt ofbeldi. Notað til að kúga og þagga. Notað til að særa og lítillækka.“
Leiðinlegt fyrir fjölskylduna
Það kallaði fram vanmátt og særindi að vera kölluð strengjabrúða á opinberum vettvangi. „Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri. Og mér finnst það leiðinlegt mín sjálfrar vegna; leiðinlegt vegna þeirrar stelpu sem ég var, ungu konu og nú fullorðnu konu.“
Sólveig Anna kveðst þó vita fullvel að hún sé ekki strengjabrúða, jafnvel og hún viti að slíkar ásakanir myndu ekki stoppa í bráð. „En ég ákvað í gærkvöldi að verða samt alltaf leið þegar það gerist. Ég ætla ekki að pína konu-partinn til að verða kaldan og harðan gagnvart ógeðinu, heldur halda í tilfinninguna og leyfa henni að lifa.“
Viðkvæmni boðin velkomin
Tilfinningar kvenna hafi verið notaðar gegn þeim og þeim gert að forðast það láta særa sig. „Partur af uppreisn okkar gegn feðraveldinu er að leyfa ekki að tilfinningar okkar séu notaðar gegn okkur.“ Nú sé tíminn til að rísa upp gegn þeirri hreyfingu.
„Kven-fjandsemin er víða og baráttan gegn henni þess vegna háð útum allt, líka inn í okkar eigin heilum og hjörtum. Ég hef oft fyrirlitið sjálfa mig fyrir að vera "of viðkvæm". En ég er hætt því. Það eru kvenréttindi mín að verða leið. Ég ætla ekki að breytast. Það sem ég ætla að gera er að berjast fyrir því að kven-hatandi mennirnir með ljótu orðin og hugsanirnar missi völdin sín. Það er barátta sem er þess virði að taka þátt í.“
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallar mig á vefsíðu sinni enn á ný "strengjabrúðu" tveggja karlmanna....
Publicado por Sólveig Anna Jónsdóttir em Segunda-feira, 27 de julho de 2020