Sólborg Guðbrandsdóttir sem haldið hefur út Instagram síðuna „Fávitar“ undanfarin ár var valin í hóp tíu framúrskarandi ungra Íslendinga á dögunum. Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á dögunum en hann er verndari verkefnisins hérlendis.
Síðan var stofnuð af Sólborgu til þess að vekja athygli á kynferðisofbeldi og birtir hún þar reglulega skjáskot af kynferðislegri áreitni sem fólk hefur orðið fyrir á netinu. Sögur af ofbeldi sem fólk hefur orðið fyrir og ræðir jafnréttismál.
Í gær ritaði Sólborg persónulega færslu á síðunni þar sem hún tók það fram að skammdegið legðist nú yfir marga Íslendinga á þessum tíma.
„Ég þekki fæst ykkar persónulega og þið þekkið mig ekki heldur. Mig langar ekki að þið fáið ranga mynd af mér. Ég kem hingað inn á þegar ég treysti mér til þess, þegar ég er á ágætum stað í hausnum á mér og treysti mér til að horfast í augu við heiminn og allar þær áskoranir sem hann sendir okkur.
Stundum á ég erfitt með að fara fram úr rúminu á morgnanna því mér líður ekki vel og suma daga langar mig ekki að tala við neinn og loka mig af. Ég skil oftast ekkert í þessum heimi og hvers vegna við séum öll hérna. Þetta er ráðgáta sem getur gert mig gjörsamlega geðveika og tekur sérstaklega á í skammdeginu,“ sagði Sólborg í færslunni.
Með henni vill Sólborg vekja athygli á því að hún sjálf sé ekki alltaf með allt á hreinu.
Fyrsta skrefið getur verið erfitt
„Við erum öll að díla við okkar shit og dagarnir eru mis erfiðir. Það hefur gjörsamlega bjargað lífi mínu að leita til sálfræðinga og geðlækna til að tala um vandamálin mín, forréttindapésinn sem ég er.
Ég veit að fyrsta skrefið getur verið ótrúlega erfitt. Næstu 500 geta verið það líka. En ég veit að það að biðja um hjálp getur bjargað lífi ykkar líka,“ sagði hún og minnir fólk á að það eigi oft miklu meira sameiginlegt heldur en því gruni.
„Við þurfum að vera duglegri að minna okkur á það, vera til staðar og elska hvert annað. Sýna hverju öðru umburðarlyndi og koma fram af virðingu. Við þurfum öll á því að halda og vitum ekkert um það sem næsta manneskja gæti verið að ganga í gegnum.
Ef þið eruð að bugast - talið við einhvern. Ef ykkur líður eins og þið hafið engan til að tala við, talið við mig. Ég er hér.
Þetta getur orðið betra. Við gerum þetta saman.“
Pistill Sólborgar hefur fengið góð viðbrögð lesenda sem hafa þakkað henni fyrir framtak sitt, stuðning og baráttu.