Allt stefnir í að Samfylkingin haldi aukalandsfund í lok mai og kjósi um forystu í opinni kosningu fyrir fundinn. Annað hvort sækir Árni Páll endurnýjað umboð eða þá fær Samfylkingin nýjan formann.
Flokksmenn eru farnir á taugum og hrópa nú á breytingar. Léleg útkoma úr skoðanakönnunum veldur þessu en flokkurinn er að mælast með minnsta fylgi sem þekkst hefur þar á bæ. Athyglisvert er að ekki er að heyra að almennir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum ætli að heimta aukalandsfund og formannskosningar þó svo flokkur þeirra mælist einnig með minnsta fylgi frá upphafi mælinga og sé kominn niður í og jafnvel niður fyrir 20%.
Ef Samfylkingin grípur til aðgerða af þessu tagi gæti það haft áhrif á aðra flokka. Sérstaklega ef breytingar snúa neikvæðri þróun við.
Ýmsir eru nú komnir með formannshita hjá Samfylkingu. Má þar nefna Helga Hjörvar, Magnús Orra Schram sem féll út af þingi síðast, Ólínu Þorvarðardóttur sem kom inn á þing við fráfall Guðbjarts Hannessonar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem bauð sig fram úr launsátri í fyrra og hefur verulega truflað störf forystu flokksins. Ekkert þeirra getur sameinað flokkinn að baki sér.
Það gæti Össur Skarphéðinsson aftur á móti en ólíklegt þykir að hann vilja taka við að nýju við þessar erfiðu aðstæður. Katrín Júlíusdóttir varaformaður myndi heldur ekki hjálpa enda er hún hluti af þeirri forystu sem skorar svo lítið um þessar mundir. Auk þess er hún önnum kafin við háskólanám sitt, sem yðri henni ekki til framdráttar í formannskjöri.
Líklegra er talið að leitað verði til fyrrverandi forystumanna sem nú eru utan þings. Þórunn Sveinbjörnsdóttir sagði af sér þingmennsku og fór í háskólanám. Hún á að baki farsælan feril í flokknum og var m.a. ráðherra. Hún er nú komin í verkalýðspólitík sem ætti að styrkja hana enn frekar. Snýr Þórunn til baka og tekur við flokknum í þessum vanda?
Eins mætti spyrja hvort krataarmur flokksins horfi ekki til Guðmundar Árna Stefánssonar fyrrum bæjarstjóra í Hafnarfirði, þingmanns og ráðherra. Hann er kominn til landsins eftir sendiherraferil erlendis. Hann er margreyndur stjórnmálamaður sem gæti komið ýmsu til leiðar.
Þá þarf að svara því hvort til greina kæmi að sameina Samfylkingu, leifarnar af Bjartri framtíð og VG undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Það myndi svara þessum spurningum öllum og leysa bráðavanda Samfylkingar. Hitt er svo annað mál hvort unnt yrði að raða saman því brotasilfri sem vinstri vængur íslenskra stjórnmála er nú um stundir.
Náttfari spáir því að Árni Páll sæki sér endurnýjað umboð og taki með sér nýjan varaformann – sem er ekki við háskólanám úti í bæ í stað þess að vinna vinnuna sína í þinginu.