Snilld vinstri grænna en flatneskja sjálfstæðisflokksins

Vinstri græn sýndu klókindi og mikla fagmennsku þegar þeim tókst að ráða fráfarandi landlækni í stöðu aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra.
 
Birgir Jakobsson er hokinn af reynslu á heilbrigðissviðinu og með glæstan feril að baki sem forstjóri stórra erlendra heilbrigðisstofnana. Hann mun styrkja ráðuneytið til muna og einnig ráðherra, bæði faglega og pólitískt.
 
Sama dag og heilbrigðisráðherra tilkynnir um þennan snilldarleik, skýrir iðnaðarráðherra frá vali sínu á aðstoðarmanni.
 
Þar er um að ræða fallinn þingmann, Hildi Sverrisdóttur. Hún hefur enga þekkingu eða starfsreynslu á sviði iðnaðar, nýsköpunar eða ferðaþjónustu. Ljóst er að flokkurinn er að útvega henni starf, bara til að útvega henni starf.
 
Hildur vann um tíma hjá 365 miðlum en var sagt upp starfi. Hún bauð sig fram til borgarstjórnar 2014 en náði ekki kjöri. Komst inn í borgarstjórn þegar Júlíus Vífill varð að segja af sér vegna Panamaskjalanna. 
 
Hún bauð sig fram til Alþingis en náði ekki kjöri. Komst inn á þing við fráfall Ólafar Nordal. Hildur var á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í október sl. en náði ekki kjöri.
 
Segja má að það sé meira framboð af Hildi Sverrisdóttur en eftirspurn. Svo virðist sem flokkurinn telji sig þurfa að útvega henni lifibrauð.
 
Fagmennska Vinstri grænna er ólíkt meiri þegar kemur að vali aðstoðarmanns ráðherra en hjá Sjálfstæðisflokknum eins og þessi dæmi sýna glöggt.
 
Rtá.