Hjónin Laufey Þóra Friðriksdóttir og Ómar Már Jónsson búa í Seljahverfinu í grónu og friðsælu hverfi þar sem mikil veðursæld ríkir. Þau ákváðu að láta drauminn rætast og hönnuðu og byggðu draumapallinn sinn sem hægt er að njóta allan ársins hring. Sjöfn heimsækir hjónin á pallinn í þættinum Matur og heimili í kvöld sem er hinn glæsilegasti og hefur stækkað heimili þeirra til muna.
Hönnunin á pallinum var að mestu í höndum Ómars. „Enda er hann með reynslu, búinn að gera pall áður við húsið sem við áttum í Súðavík. Hann var einnig aðalsmiðurinn en fjölskyldan kom samt öll að verkinu,“ segir Laufey.
Lífsgæði fjölskyldunnar hafa aukist með þessa aðstöðu út við og ófáar stundirnar eru nýttar til að snæða utandyra. „Fyrir utan að manni finnst húsið hafa stækkað heilmikið og hægt að bjóða í skemmtilegar veislur þar sem stórfjölskyldan og vinir rúmast vel,“ segir þau Laufey og Ómar.
Grilla sykurpúða
Ómar gerði sér lítið fyrir og hannaði útieldstæðisborð sem þau hafa komið fyrir undir pergólum sem nýtist allan ársins hring. „Það er mjög mikið sport að grilla sykurpúða með barnabörnunum við útieldstæðisborðið sem við smíðuðum og er á pergólusvæðinu sem er mikið notað,“ segja hjónin og kalla svæðið kosíhornið.
„Okkur langaði í gas-útieldstæði með borðplötu svo hægt væri að hafa smá snarl og drykki við höndina, en við höfðum séð svoleiðis erlendis. Þegar við fórum að leita að svona útieldstæði komumst við að því að við gátum ekki fengið slíkt hér heima, svo það var ekkert annað í stöðunni en að gera það sjálf,“ segir Ómar þegar Sjöfn spyr hann hvaðan hugmyndin hafi komið. Í dag er fjölskyldan búin að stofna fyrirtækið Eldsteina og selja þessi útieldstæði sem Ómar byrjaði á að hanna fyrir sig og sína.
Meira um draumapallinn og eldstæðið í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: