Náttfari 25. sept 2016
Í Grettissögu segir að Þorbjörn öxnamegin hafi riðið til Bjargs í Miðfirði þar sem bjó Atli Ásmundsson. Hann hafði hjálm á höfði, var gyrtur sverði og hafði fjaðurspjót í hendi og var breið mjög fjöðrin. Þorbjörn lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo að stóð í gegnum hann. Þá mælti Atli: „Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin“ Síðan féll hann fram á þröskuldinn.
Sagan segir að Atli hafi verið harmdauði því hann var bæði vitur og vinsæll. Engin fégjöld komu fram fyrir víg Atla. En Þorbjörn öxnamegin var lítt þokkaður af þessu verki en sat þó um kyrrt í búi sínu.
Náttfari hefur undir höndum ópersónugreinanlegan tölvupóst. Í skýrsluformi segir þar frá draumförum þingkonu úr Framsókn um það sem hún kallar: Spjótasögu hina síðari.
Þingkonan greinir þar frá því að hún hafi hrokkið upp úr föstum svefni skömmu fyrir rismál (kl. 06.00 að morgni). Var þá ljóslifandi fyrir henni þungur draumur sem hún gat ekki ráðið. Henni fannst að þingkonur Framsóknar hefðu verið saman komnir í torfbæ flokksins á Þingvöllum ásamt með Sigmundi Davíð. Væta var úti.
Sigmundur Davíð hafði sent húskarla sína til sláttar, en menn hans sumir voru fyrir norðan að afla fylgis. Drepið var á dyr. Gekk þá út þingkona ein. Sigurður Ingi sem barið hafði að dyrum hafði svip af þingkonunni og lét ekki sjá sig því hann ætlaði annað að vinna.
Hún kom í stofu. Sigmundur Davíð spurði hvað komið var. Hún kvaðst ekki hafa séð komið úti. Og er þau töluðu þetta laust Sigurður Ingi mikið högg á dyrnar. Þá mælti Sigmundur: „Mig vill sá finna, og mun hann eiga erindi við mig, hversu þarft sem er.“
Gekk hann þá fram og út í dyrnar; hann sá engan úti. Væta var úti mikil og því gekk hann eigi út og hélt sinni hendi í hvorn dyrastafinn og litast svo um. Í því bili snaraði Sigurður Ingi sér fram fyrir dynar og lagði tveim höndum til Sigmundar Davíðs með spjótinu á honum miðjum svo að stóð í gegnum hann.
Sigmundur Davíð mælti er hann fékk lagið: „Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin.“ Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu út konurnar sem verið höfðu í þingflokksstofunni. Sigurður Ingi var þá kominn á bak hesti sínum, blesóttum gæðingi frá Brúnastöðum, og lýsti víginu á hendur sér.
Fram kemur í skýrslunni að meirihluti þingkvenna hafi staðfest við skrifara skýrslunnar um dagmál (kl. 09.00 fyrir hádegi) að þær hefðu haft sömu draumfarir þá um nóttina og vildu verða meðhöfundar að draumfaraskýrslu um þennan firnamikla atburð. Á miðmunda (kl.13.30) hefðu þær hins vegar ekki kannast við neitt og tekið nöfn sín af skýrslunni.
Skýrsluskrifari segir að engin fégjöld hafi komið fyrir ódæðið í þessari spjótasögu hinni síðari. Þykir skrifara það allt með eindæmum og draumurinn allur vera torráðinn. Afréð skrifari því að senda skýrsluna til þingbúðar Ögmundar Jónassonar.Hann þykir slyngur í draumráðningum og forspár.
En áður en sól hneig til viðar handan við Botnssúlurnar steig Ögmundur á Lögberg og sagði erindi sitt á hinum fornhelga þingstað vera úti og hann gæti því ekki komið því við að skyggnast inn í draumfarir Framsóknar. Skýrsluskrifari telur þó að framsóknarmenn geti setið áhyggjulitlir um kyrrt í búum sínum en sumir betur þokkaðir en aðrir.