Hræringar í launþegafélögum vekja athygli og undrun sumra. Menn tala um „skýr skilaboð“ og túlka hver með sínum hagsmunum úrslit kosninganna í Eflingu. T.d. fagnar Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness að hafa fengið liðsauka í baráttu sinni gegn öðrum verkalýðsfélögum, sérstaklega samtökum þeirra ASÍ.
Og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR fagnar sem sigurvegari. Kannski er hann það eftir að hafa beitt sér í Eflingarkjörinu eins og hann hefði sjálfur verið í kjöri.
Ein skilaboð eru þó ótvíræð og fullkomlega skýr. Hinum almennu, venjulegu félagsmönnum í launþegahreyfingunni er bara slétt sama!
Þátttakan í kosningunum hjá Eflingu var eitthvað innan við 20%. Þegar Ragnar Þór var kosinn í VR var þátttakan um 17%. Félagsmenn höfðu engan áhuga, þeim var bara sama um hver tæki við forystunni. Og fráfarandi forystu virtist líka vera slétt sama. Hvernig er annars hægt að átta sig á hvers vegna Sigurður Bessason, fráfarandi formaður Eflingar, hirti ekki um að fá amk frambærilegt fólk til að bjóða sig fram á A-listanum?
Hér skal því spáð að sömu örlög bíði ASÍ. Það liðast í sundur vegna zombie-heilkenna forystunnar og áhugaleysis almennings.
Rtá