Bryndís Stella Birgisdóttir og Inga Bryndís Jónsdóttir verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Mæðgurnar Bryndís Stella Birgisdóttir innanhúshönnuður, sem ávallt er kölluð Stella og Inga Bryndís Jónsdóttir stíllisti eru mjög samrýndar og njóta þess að undirbúa aðventuna og jólin saman. Sjöfn Þórðar heimsækir þær mæðgur á fallegt heimili Stellu sem býr í Fossvogsdalnum og fær innsýn inn í aðventu undirbúninginn í þættinum Matur og Heimili á mánudagskvöld næstkomandi.
Grænar greinar og hvítir og brúnir jólapakkar
„Við mæðgurnar njótum þess að eyða aðventunni saman ásamt fjölskyldunni. Hver jól erum við með ákveðið jólaþema sem breytist ár frá ári. Núna í ár er þemað grænar greinar, náttúrulegir jólapakkar, þar sem litir og form er sótt í náttúruna.“ Ein af uppáhalds gæðastundum þeirra mæðgna er að pakka inn jólapökkunum og skreyta. „Hefðir og siðir skipta okkur miklu máli. Við leggjum mikið upp úr því að pakkarnir séu fallegir og innihaldið kærleiksríkt.“ Það er heilög stund hjá þeim mæðgum og ræður einfaldleikinn ríkjum þegar kemur að því að pakka inn. „Í ár er eru það bastbönd, hvítur pappír og brúnir pokar sem prýða jólapakkana og tóna vel við náttúrulitina,“segja þær mæðgur og elska að nostra við hvert smáatriði. „Okkar gæðastund er tebolli, innpökkun, kertaljós og smákökubakstur.
Hvítir náttúrulegir pakkar í bland við brúna tóna.
Einnig hafa þær Stella og Inga Bryndís gaman að því að setja saman jólakransa. Við fáum að sjá þá í þættinum og hvernig þær nýta hið græna, greinarnar til að skreyta heimilið á einfaldan, smekklegan og fallegan hátt án mikils tilkostnaðar.
Bryndís Stella Birgisdóttir, Inga Bryndís Jónsdóttir og Sjöfn Þórðardóttir.