Skotheldir áramótasmáréttir fyrir bragðlaukana

Þórunn Högnadóttir stíllisti og fagurkeri er einstaklega lagin við að hanna og skreyta fyrir án mikils tilkostnaðar og nýta það sem fyrir. Henni finnst fátt skemmtilegra en að undirbúa hátíðarhöld eins áramótaveislur og þá kemur ástríðan hennar í sköpunlistinni sér vel. Þegar kemur að því að undirbúa áramótaveisluna er ekkert gefið eftir og Þórunn fer í sinn besta gír og skreytir allt hátt og lágt og gerir smárétti í anda áramótanna. Við fengum Þórunni til að segja okkur frá áramótaþemanum hennar í ár og gefa okkur nokkrar uppskriftir af skotheldum áramótaréttum á áramótaborðið.

Glimmer, gull og silfur toppa áramóta þemað í ár

„Ég er mikil glimmer kona og finnst einstaklega gaman að hafa silfur og gull í skreytingum mínum, í ár blanda ég þessum tveimur litum saman með svörtu og hvítu. Leggur þú mikið upp úr því að skreyta veisluborðið fyrir áramótin, til dæmis með grímum og knöllum? „Við erum yfirleitt alltaf með grímur, hatta og knöll. Mér finnst skemmtilegt að hafa það með á veisluborðinu og eyði dágóðum tíma í að dúlla mér við skreytingarnar. Oftast föndra ég eitthvað, eins og núna spreyjaði ég litlar freyðivínsflöskur og setti glimmer á tréstafi. Mér finnst líka gaman að gera borðið persónulegt. Einnig gerði ég nokkrar gerðir af flottu Stoff stjökunum og langaði aðeins að poppa þá upp, setti því silfur glimmer á silfur stjakana og gull glimmer á gull stjakana. Þetta rennur svo af með volgu vatni og stjakarnir verða eins og nýir aftur. Svo finnst mér nauðsynlegt að hafa smá grænt með, í ár setti ég mosa á borðið og fallegar greinar í vasa.“ Tekur þú niður jólin þegar líður að því að kveðja árið og fanga nýju? „Nei, ég leyfi jólunum yfirleitt að vera yfir áramótin en skipti oftast nær um greni fyrir fallegar greinar og fersk blóm.“

torunn högnadottir 12.jpg

Laxinn í hávegum hafður um áramótin

Ertu til í að svipta hulunni af áramótamatnum ykkar fjölskyldunnar í ár? „Við verðum með graflax og reyktan lax í forrétt og kalkún og meðlæti í aðalrétt. Eftirréttirnir eru frönsk súkkulaðikaka og snickers marengskaka.“ Ertu fastheldin á matarhefðir um áramótin? „Já, ég myndi segja það, en mér finnst líka alveg gaman að breyta aðeins til.“

torunn högnadottir 05.jpg

Laxarúllur með rjómapiparosti og kapers

U.þ.b. 15 rúllur

2 pakkar/bréf reyktur lax

1 box rjómapiparostur

1 krukka kapers

Smyrjið laxinn með piparostinum og setjið kapers ofan á, rúllið upp og kælið. Skorið í bita, gott að vera með ferskt dill með.

torunn högnadottir 08.jpg

Graflaxstjörnur á blinis

U.þ.b. 20 bitar

2 pakkar af blinis

2 pakkar/bréf af graflax

1 flaska/krukka af graflax sósu

Ferskt dill eftir smekk

Hér notaði Þórunn stjörnukökuform til að skera út bæði lax og blinis. Síðan er laxinn settur ofan á blinis og síðan graflax sósa ásamt dilli sett ofan á.

torunn högnadottir 01.jpg

Hreindýrasnittur með klettasalati og rauðlaukssultu

1 stk snittubrauð

2 pakka/lengjur af hreindýrapaté

1 krukka af rauðlaukssulta

1 poki klettasalat

olífuolía

salt eftir smekk

ferskur parmesanostur

Byrjið á því að hita bakarofninn í 180°C gráður. Skerið niður snittubrauðið í fínar sneiðar og setjið á ofnplötu, penslið með smá olífuolíu og stráið salti yfir eftir smekk. Sneiðarnar þurfa einungis að vera í ofninum í um það bil 10 mínútur. Skerið hreindýrapatéið niður í munnbita, setjið klettasalat á sneiðarnar, síðan hreindýrapatéið, svo rauðlaukssultuna og toppið síðan með rifnum ferskum parmesanosti.

torunn högnadottir 06.jpg

Súkkulaði stjörnur

4 stykki

4 egg

2 dl sykur

50 g púðursykur

1 tsk vanilludropar

200 g smjör

200 g suðusúkkulaði

1 dl hveiti

Örlítið salt

Byrjið á því að hita bakarofninn í 200°gráður. Smjör og súkkulaði brætt saman á vægum hita. Egg og sykur þeytt vel saman. Bætið síðan við hveiti, salti og vanilludropum ásamt súkkulaðiblöndunni. Setjið í springform og bakið í um það bil 30 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað, þá er að forma stjörnur. Þórunn notar stjörnukökuform til skera út stjörnurnar

Krem

200 g suðusúkkulaði

70 g smjör

2-3 msk. síróp

örlítið salt

Allt hráefnið sett saman í pott og brætt á vægum hita og passið að hræra reglulega í blöndunni með hún bráðnar saman. Hellið síðan súkkulaðiblöndunni, kreminu yfir stjörnurnar. Skreyti með ferskum rifsberjum og flórsykri. Einnig er alveg ómissandi að hafa þeyttan rjóma með.

Gleðilegt nýtt ár.

torunn högnadottir 03.jpg

torunn högnadottir 04.jpg

torunn högnadottir 02.jpg

Stoff stjakarnir og kertin eru frá Módern, dúkurinn og tauservétturnar og kransinn eru frá Magnolia, diskarnir fá HM Home og silfur gardínan og gull stjörnuhengið frá Confetti sisters.

Myndir Stefán Karlsson ljósmyndari Fréttablaðið.