Skólafríin – helvíti eða himnaríki?

Nú standa skólafrí yfir. Maður hefur lesið statusa á facebook frá mjög reiðum foreldrum sem eru í mestu vandræðum með vinnu og pössun. Skólafrí búa stundum til spennu á heimilum og skapa mismunun. Maður hefur nefnilega líka séð myndir á facebook af draumafríi fjölskyldna, skemmtilegum utanlandsferðum þar sem allir eru skælbrosandi í stöðutákni samtímans, sjálfsmyndinni, sjálfunni, því sem kallast á ensku „selfie“.

Allt leiðir þetta hugann að því hver samanlögð áhrif á atvinnulíf og fjölskyldur séu af þessum tveimur aukafrídögum? Og hvað með börnin sjálf, líðan þeirra og velferð? Þar ætti fókusinn að liggja.

Ætli það sé kannski einkum efnað fólk sem gerir börnum sínum jákvæðan dagamun? Fólk sem hefur atvinnulegt og fjárhagslegt svigrúm til að fara í ferðalög? Ræður efnahagur hvort niðurstaða þessara fjögurra frídaga í röð fyrir börn á grunnskólaaldri sé helvíti eða himnaríki? Líklegast er kannski að flestir sjái bæði kosti og galla á þessu kerfi og kjósi að nota hvorugt hugtakið heldur meðlhófskenndara orðalag.

En það er gild spurning hvort ávinningurinn af þessari helgi kunni að vera stéttskiptur? Og þótt skólakerfið færi sín rök fyrir fríinu væri gaman að sjá þeim áhrifum með skynsamlegri rökræðu teflt saman gegn öllum öðrum áhrifum. Nennir einhver að reikna þetta út eða efna til könnunar?

Það er ekki sjálfgefið að skólafrí verði alltaf með þeim hætti sem þau eru núna.