Mafíustarfsemi vex fiskur um hrygg

Samkvæmt nýrri skýrslu eru vísbendingar um að skipulögðum glæpum og þá ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins sé að fjölga. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kvikunni á Hringbraut í gærkvöld en þar ræddi  lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, skipulagða glæpastarfsemi.

Kvikan á Hringbraut viðaði að sér upplýsingum frá lögregluumdæmum landsins, öðrum en Reykjavíkurumdæmi við gerð þáttarins en allir þeir lögreglumenn víða um land sem Hringbraut ræddi við sögðust yfirkeyrðir vegna álags. Mórall er sagður misgóður, þreyta býður mistökum heim, þeir sem vilja skipta um starf eru ekki endilega góðir starfsmenn. Eftirlit er ónógt og mun minna en verið hefur. Forvirkar aðgerðir eru hverfandi. Margir lýsa áhyggjum af því hvað kann að krauma undir í ýmsum byggðum landsins. Þótt semjist við ríkið um launahækkanir sé minna um forvarnir á vegum lögreglu s.s. heimsóknir í skóla en áður og það kunni að leiða við vondra áhrifa síðar.

Varðandi skipulagða glæpastarfsemi nefna lögreglumenn úti á landi einkum svokallaðar skyndiheimsóknir meðlima glæpagengja sem kannski komi í heimsókn, líti stutt við, geri usla og fari en þó telja sumir blikur á lofti sem rímar við nýja skýrslu Ríkislögreglustjóra. Nokkrir lögreglumenn sem Hringbraut ræddi við nefna að ofmælt sé að landsbyggðirnar séu að missa sakleysi sitt. Einn segir: „Þetta er svolítið villlta vestrið núna og versnar með hverjum deginum.“ Sérstaklega er nefnt að á meðan fólki fjölgi, bæði Íslendingum sem og ferðamönnum stórlega, séu dæmi um að stöðugildum hafi fækkað og fjárveitingar skornar niður.

Ýmsar ógnir

Fram kom hjá lögreglustjóra að skortur á fjármunum, ýmsu eftirliti og forvirkum aðgerðum sé staðreynd. Í skýrslu Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi eða mafíustarfsemi er viðurkennt að hér á landi séu 6-10 glæpagengi.  Talað er um ýmsar ógnir sem steðji að, aukinn ferðamannafjölda sem taki æ meiri tíma frá heðfðbundinni löggæslu. Einnig mætti nefna þann aukna tíma sem fer í aukna áherslu á að uppræta heimilisofbeldi, vinnumansal, dóp og fleira.

Sigríður Björk sagði að skipulögð glæpagengi væru allt þrennt, innlens mafíustarfsemi, erlend mafíustarfsemi og samvinna innlendra og erlendra.

„Ljóst er að þessir aðilar láta ekki eingöngu til sín taka á höfuðborgarsvæðinu og vísbendingar eru um aukin umsvif á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni.

Spurningar um undirmönnun í lögreglu koma víða fram í skýrslunni og ekki verður annað séð en að skortur á eftirliti löggæslufólks sé töluvert mein. „Nefna má til samanburðar að nú munu 24 landverðir starfa í Vatnajökulsþjóðgarði en lögreglumenn á Suðurlandi eru alls 34, á svæði sem nær frá Sandskeiði við Bolöldu austur fyrir Höfn í Hornafirði,“ segir orðrétt.

Fleiri dæmi um áskoranir lögreglu á landsbyggðinni mætti nefna; svo sem fjölda hafna á Austurlandi þar sem lítið sem ekkert eftirlit á sér stað sökum manneklu.

Orðrétt segir í skýrslunni: „Almennt telur lögreglan á landsbyggðinni sig ekki færa um að halda uppi ásættanlegu öryggisstigi sökum fjárskorts. Ljóst er að þetta ástand mála er einkum að rekja til niðurskurðar á fjárveitingum til lögreglunnar á síðustu árum.

Dóplandslagið að breytast

Í skýrslunni segir einnig að fyrirliggjandi upplýsingar bendi til  að í vöxt færist að fíkniefnaframleiðsla á landsbyggðinni fari á markað í Reykjavík. Raunar eru fyrir hendi vísbendingar um að innlendir fíkniframleiðendur kunni að huga að útflutningi á framleiðslu sinni.  Oft er útrás fagnað en ekki endilega þegar um ræðir ólöglega vímugjafa.

Viðurlög miðast við fjölda plantna í framleiðslu og vísbending er um fleiri og minni framleiðendur en áður til að menn sleppi sem best ef upp um kemst – en eigi að síður sé um mjög kerfisbundna framleiðslu að ræða. Lögreglustjóri telur ekki rétt án frekari umræða að afglæpavlæpavæða dóp líkt og marijúana án frekari umræðu. „Jafnframt hefur greiningardeild ítrekað vakið athygli á að brotamenn kunni í vaxandi mæli að horfa til landsbyggðarinnar við framleiðslu og meðferð fíkniefna. Tiltækar upplýsingar bendi til þess að þetta mat eigi við rök að styðjast,“ segir í skýrslunni.

Lögreglan telur að í vöxt færist að fullvinnsla fíkniefna fari fram hér á landi. Er þar um að ræða efni eins og amfetamín, e-töflur og jafnvel að einhverju marki kókaín.

Fíkniefnabrotum hefur fjölgað um tæplega 15 prósent á milli áranna 2013 og 2014 að því er er fram kemur í skýrslu um afbrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Þar segir að lögreglan hafi ekki lagt hald á jafn mikið af maríjúana í 16 ár.

Erfiðar aðstæður fyrir frumkvæði

\"Telji samfélagið umsvif skipulagðra brotahópa áhyggjuefni er ljóst að við þeirri stöðu mála verður ekki brugðist á annan veg en þann að frumkvæðisvinna lögreglu gagnvart slíkri starfsemi verði aukin. Þetta á við um fíkniefni og einnig skipulagða brotastarfsemi sem tengist vændi og mansali. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur margt benda til þess að slík starfsemi fari fram innan umdæmis hennar en segir takmarkaða möguleika á frumkvæðisvinnu hefta upplýsingaöflun. Sömu sögu má segja um öll önnur lögregluumdæmi landsins,“ segir í skýrslunni.

Einnig segir: „Sú hætta er augljóslega fyrir hendi að starfandi hópar eflist af þessum sökum. Á það jafnt við um umsvif viðkomandi og veltu fjármuna. Í því efni er vakin athygli á vaxandi umsvifum hópa sem standa að marijúana-ræktun og mögulega framleiðslu annarra fíkniefna. Ítrekaðar eru vísbendingar um aukin umsvif af þessu tagi utan höfuðborgarsvæðisins.“

Þá eru vísbendingar um að mansal kunni að tengjast kynlífsþjónustu á svokölluðum „kampavínsklúbbum“ í höfuðborginni. Ýmislegt bendir til að vændisþjónusta þrífist í kringum þessa staði. Að minnsta kosti fimm „kampavínsklúbbar“ eru nú reknir á höfuðborgarsvæðinu. Oft er þar um erlendar stúlkur að ræða en ekki liggja nægar upplýsingar fyrir um hvort þær séu fluttar inn nauðugar eða hindraðar í að ferðast um frjálsar, samkvæmt skýrslunni.

Einnig má nefna síður á netinu þar sem vændisþjónusta er auglýst. Að auki hafa landamæraverðir upplýst að grunur leiki á að erlendar konur komi gagngert til landsins í því skyni að stunda vændi. Íslenskir fjölmiðlar birta iðulega viðtöl við ekki erlendar heldur íslenskar vændiskonur hér á landi. Líklegt er að með vaxandi ferðamannastraumi til landsins aukist spurn eftir vændisþjónustu. Óstaðfestar upplýsingar eru um að svokölluð fylgdarþjónusta sé starfrækt á Íslandi og að kaupendur þeirrar þjónustu hafi t.d. dvalið í sumarhúsum, hótelum og veiðihúsum á landsbyggðinni.  Lögreglustjóri borðar átak gegn glæpastarfsemi á Netinu.

Innflytjendur ekki sérstakur vandi

Fleira er forvitnilegt í skýrslunni. Mikill vöxtur er í byggingariðnaði á Íslandi núna. Umræða um innflytjendur hefur sumpart verið átakasöm og jafnvel fordómafull hér á landi. Það hlýtur að gleðja landsmenn að lögreglan segi í skýrslu sinni að innflytjendur skapi almennt ekki sérstakan vanda á sviði löggæslunnar, ólíkt því sem stundum heyrist. Hitt verður að skoða sem verri fréttir að lögreglan býr samkvæmt skýrslunni ekki yfir nægilegri getu til að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi um internetið sem krefst þess að haldið sé uppi öflugu samstarfi við erlend lögreglulið og stofnanir.

Mansal var einnig til umræðu í þættinum. Í íslenskri réttarsögu hefur það einu sinni gerst að sakfellt hafi verið í Hæstarétti í mansalsmáli. En þýðir þó ekki að mansal sé ekki stundað. Mansal er einn erfiðasti málaflokkur sem kemur til Greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Oftar en ekki treysta fórnarlömb sér ekki til að leggja fram kæru eða fylgja henni eftir. Vísbendingar eru fyrir hendi um að fjöldi brota og þolenda sé meiri en berst lögreglu. Áður fyrr var einkum horft til mansals í tengslum við vændi og kynlífsþjónustu en aukin þekking og rannsóknir hafa leitt í ljós að brotastarfsemi þessi er mun víðtækari og tekur m.a. til vinnumansals og svonefndra „burðardýra” í fíkniefnamálum.  Á sama tíma og þetta er raunin dæma íslenskir dómstólar unmg og óhörnuð burðardýr til ungrarar refsingar og kannski verða þau aldrei söm að því loknu.

Ekki brugðist við ákalli

Í áfangaskýrslu nefndar um gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland frá 8. mars 2013 sem innanríkisráðherra kynnti á Alþingi kom fram sú forgangsröðun að fjölga bæri almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit og styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum s.s. rannsóknardeildum sérdeildum sem starfa á landsvísu og í landamæradeild á Keflavíkurflugvelli. Við þessu hefur ekki verið brugðist.

Greiningadeild telur að huga beri að stofnun rannsóknarteymis sem starfi á landsvísu og aðstoði lögregluumdæmin við rannsókn og úrvinnslu flókinna mála, t.d. tölvurannsóknir og fíkniefnamál sem krefjast mikillar sérfræðikunnáttu. Nú er starfrækt í landinu ein vopnuð lögreglusveit; sérsveit ríkislögreglustjóra. Hún er sérstaklega þjálfuð til þess að takast á við hættuleg tilvik svo sem vopnamál, gíslatökur, hættulega einstaklinga og hópa.

Einnig segir að við mat á stöðu lögreglunnar á landsbyggðinni, einkum með tilliti til frumkvæðislöggæslu, beri að hafa í huga að verkefnum þar fjölgi í takt við aukinn straum ferðamanna.  Honum fylgi sem dæmi aukinn fjöldi slysa auk þess sem iðulega fari fram tímafrek og krefjandi leit að týndu fólki. Slíkt kalli á mikla vinnu af hálfu lögreglunnar.

Ekki fær um störf sín

Í lokaorðum skýrslunnar um skipulagða brotastarfsemi frá Ríkislögreglustjóra segir: „Við vinnslu þessarar skýrslu kom fram það almenna mat lögreglunnar á Íslandi að hún sé ekki fær um að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu vegna fjárskorts og manneklu.“

Þá var heimilisofbeldi til umræðu í Kvikunni en frá því að lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu setti heim­il­isof­beld­is­mál í for­gang og samn­ing­ur þar að lút­andi var und­ir­ritaður um miðjan janú­ar hafa 450 slík mál komið til kasta lög­regl­u, eða 50 mál á mánuði.

(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is.)