Ákvörðun Birgis Þórarinssonar um að segja skilið við Miðflokkinn og ganga í þingflokk sjálfstæðismanna hefur vakið mikla athygli og þó aðallega hneykslan. Flestum blöskrar að frambjóðandi fari svona á bak við flokksfélaga sína, nýti þá til að fleyta sér á þing og gangi svo í annan flokk þegar vart er búið að telja öll atkvæði. Mörgum þykir þetta ókristileg framkoma. Skýringar þingmannsins að brottförin stafi af þriggja ára gömlu máli halda ekki vatni og draga raunar vel fram óheilindin á bak við þessa ákvörðun.
Greinilega telur þessi fyrrum miðflokksmaður Sjálfstæðisflokkinn vera besta vígið til að berjast fyrir málum á borð við að ákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama verði afnuminn, tryggt verði að ríki og kirkja verði aldrei aðskilin, biskup verði ávallt mikils metinn embættismaður ríkisins, kennsla í kristinfræði verði tekin upp í skólum að nýju, mannréttindabrot fái að blómstra óhindruð svo fremi brotamennirnir séu sannkristnir, gegn afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna og ekki verði samþykktir fleiri orkupakkar.
Skoðanir af þessu tagi hafa alltaf fundist innan Sjálfstæðisflokksins en óneitanlega varpar það ljósi á áherslur flokksins í dag að þingmenn hans fagni komu Birgis Þórarinssonar án afláts og allir sem einn. Skerpir þetta mjög ímynd flokksins sem kreddufulls íhaldsflokks á hægri jaðri pólitíska litrófsins. Lítið er orðið eftir af frjálslyndi í Sjálfstæðisflokknum, sem á sínum tíma var stofnaður með sameiningu Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins. Ætli Guðrúnu Hafsteinsdóttur, nýkjörnum fyrsta þingmanni Suðurkjördæmis, líði vel í svona flokki?
- Ólafur Arnarson