Ólafsvík er einstaklega fallegt bæjarstæði á Snæfellsnesi þar sem jökulinn ber við loft. Í bænum er öflugt mannlíf og blómstrandi matar – og menningarlíf. Í miðju bæjarins, við aðalgötuna Ólafsbraut er að finna hinn margrómaða veitingastað Skerið. Það er ung fjölskylda sem á og rekur veitingastaðinn, Lilja Hrund Jóhannsdóttir matreiðslumaður og fjölskyldan hennar standa þar vaktina og töfra fram dýrindis sælkera veitingar í fallegu umhverfi við höfnina. Skerið hefur sterka skírskotun við hafið og sjávarfangið sem þar er að finna.
Sjöfn Þórðar heimsækir Lilju Hrund á Skerið í þættinum í kvöld og fær Lilju Hrund til að ljóstrar upp sögunni bak við opnun staðarins og hvernig er að opna stað á landsbyggðinni aðeins 23 ára gömul, nýútskrifaður matreiðslurmaður.
Lilja Hrund Jóhannsdóttir og Sjöfn Þórðar á Skerinu.
„Eftir að ég fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað var framtíðin ráðin, ég fann ástríðuna fyrir matargerð og naut mín í eldhúsinu,“segir Lilja Hrund en hún útskrifaðist fyrir þremur árum og lærði meðal annars á veitingastaðnum Vox á Hilton hóteli í Reykjavík. „Minn draumur var strax að opna veitingastað heima og koma með þekkinguna heim, það koma ekkert annað til greina.“ Lilja Hrund framkvæmdi draum sinn og opnaði Skerið ásamt fjölskyldu sinni í júní árið 2018 með pomp og prakt.
Staðurinn er fallega innréttaður þar sem tengingin við umhverfið er sterk. „Ég lagði mikla áherslu á að gestir okkar finni að þeir eru staddir í sjávarþorpi og matseðillinn beri þess merki líka,“segir Lilja og nefnir jafnframt fjölbreytnina á matseðlinum skipti líka miklu máli, að hafa eitthvað fyrir alla. Bróðir hennar og faðir gera út lítinn bát og koma reglulega með nýveiddan fisk sem fer beint á matseðilinn. Ekkert er dásamlegra en samhent fjölskylda sem nýtur þess að vinna saman að rekstri veitingastaðarins og leggja metnað sinn í að bjóða uppá ferskasta hráefnið sem völ er á að hverju sinni og þjóna gestunum sínum af ástríðu og natni.
Meira um hönnun staðarins og matarástina hennar Lilju Hrundar á Skerinu í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.