Helsti samkvæmisleikur landans um þessar mundir er að leggjast yfir skattskrána, eða þær upplýsingar úr henni sem fjölmiðlar birta þessa dagana. Margt forvitnilegt er þar að sjá og óneitanlega hefur skattskráin mikið upplýsingagildi. Úr skattskránni fást upplýsingar sem gagnast fólki sem fer í launaviðtöl í sínu fyrirtæki og líka þeim sem eru að sækja um vinnu og vilja vita hvaða laun á að biðja um.
Mikill misskilningur er hins vegar að allar upplýsingar úr skattskránni séu áreiðanlegar. Við erum alls ekki að sjá raunveruleg laun allra sem þar eru. Margir láta vísvitandi áætla á sig laun af ýmsum ástæðum. Sumir, sem eru mjög tekjuháir, gera það til að opinbera ekki að þeir séu á því sem við köllum ofurlaun. Þegar skattskráin hefur birst sendir þetta fólk inn leiðréttingu til hækkunar og við hin fáum aldrei að vita hver laun þess eru.
Segja má að hér sé um ákveðna „fölsun“ að ræða. Ákveðna upplýsingafölsun. Skattskráin er nefnilega ekki áreiðanleg. Þarna liggur hundurinn grafinn.
Svo eru þeir sem eru mjög tekjulágir, kannski einhverjir sem hafa verið áberandi og flogið hátt en misst flugið. Þessir aðilar vilja mögulega ekki opinbera það. Þá getur verið freistandi að láta áætla á sig þannig að svo líti út að viðkomandi sé með rokna tekjur og með hæstu skattgreiðendum. Eftir birtingu skattskrár er svo hægt að senda inn leiðréttingu og fá fellda niður áætlaða skatta. Jafnvel ár eftir ár.
Greinilega eru nokkur dæmi um þetta í nýbirtri skattskrá. Þar birtast forstjóratekjur hjá fólki sem hefur alls haft ekki slíkar tekjur.
Ekki þarf að efast um mikilvægi þess að gagnsæi sé um laun á Íslandi. Til þess er skattskráin birt.
Hins vegar skiptir máli að þessar upplýsingar séu réttar. Þess vegna er mikilvægt að skattskráin sé birt á ný þegar kærufresti er lokið og búið að ákvarða endanlegan skatt, eftir kærur og leiðréttingar. Að öðrum kosti er birting skattskrárinnar lítið annað en upplýsingafölsun – að hluta til.
- Ólafur Arnarson