Helsta fréttin sem má lesa út úr nýju fjárlagafrumvarpi er sú að fjármálaráðherra finnst allt í lagi að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023 með 90 milljarða halla. Áður var réttlætt að reka ríkið með halla vegna veiruvandans. En sem betur fer er þeim vanda ekki lengur til að dreifa. Ríkið verður rekið með 200 milljarða halla árið 2022, þó svo að röskun efnahags- og atvinnulífs vegna veiruvandans sé að baki, öll hjól hagkerfisins komin á fullan snúning og hagvöxtur í hæstu hæðum.
Þetta segir okkur að ríkisstjórnin hefur gefist upp á að stýra ríkisfjármálunum af ábyrgð. Vandanum er velt yfir á næstu ríkisstjórn eða ríkisstjórnir og skattgreiðendur framtíðarinnar. Þrátt fyrir þessa uppgjöf leggur fjármálaráðherra fram tillögur um stórhækkaðar álögur á bifreiðaeigendur, auk þess sem hækka á áfengisgjald. Þetta eru sömu gömlu leiðirnar sem einkennast af uppgjöf. Ekki eru tekin nein markverð skref til að sporna við útþenslu ríkisbáknsins þó að ætlunin sé að fresta viðbyggingu við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg sem byggja á vegna taumlausrar útþenslu í forsætisráðuneytinu.
Bjarni Benediktsson fór mörgum orðum um það í kynningu í gær að þessi skuldasöfnun væri bara í fínu lagi. Hann er vitanlega að færa skatta yfir á framtíðina með því að taka ekki í taumana varðandi eyðslu og útþenslu ríkisbáknsins. Fram kom í máli hans að hagvaxtarhorfur fyrir árið í ár og næsta ár væru mjög góðar. Þess þá heldur hefði átt að vera unnt að skila hallalausum fjárlögum. En það er ekki gert og í því felst uppgjöf.
Þeir sem komnir eru á og yfir miðjan aldur þekkja svona ríkisfjármálastjórn. Svona var þetta á verðbólgutímanum. Lausatök í ríkisrekstrinum alger. Reglulegar gengisfellingar sem sköpuðu víxlhækkanir verðlags og launa. Verðbólgan í tveggja stafa tölu, raunar fór verðbólguhraðinn yfir 100 prósent í júní 1983. Engin stefna mótuð til framtíðar, heldur miðaðist allt við að halda útgerðinni gangandi.
Fjárlagafrumvarpið fyrir 2023 er einstaklega metnaðarlaust og afleitt innlegg í komandi kjarasamninga. Ekki er gerð raunhæf tilraun til að ná tökum á rekstri ríkisins heldur er látið reka á reiðanum og flotið sofandi að feigðarósi.
Þrátt fyrir 90 milljarða ráðgerðan halla er ekki að sjá að fjármunir séu ætlaðir til að leysa úr brýnum húsnæðisvanda sem birtist víða um land en þó sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Í vor tilkynnti innviðaráðherra áform um byggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum. Ekki er nein merki að sjá í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um að standa eigi við þau áform.
Síðustu ár hafa verið þau bestu sem íslensk útgerð hefur séð, aldrei hefur útgerðin hagnast meira og ekki sér fyrir endann á því. Þrátt fyrir að hátt eldsneytisverð hækki rekstrarkostnað hefur fiskverð hækkað svo gríðarlega á mörkuðum að methagnaður verður hjá útgerðinni. Gjafakort að dýrmætri þjóðarauðlind veldur því svo að hagnaður útgerðarinnar er svo mikill að fullt tilefni væri til að hækka veiðigjöld duglega eða hreinlega leggja hvalrekaskatt á hana. Sama mætti íhuga í fjármálakerfinu nú þegar vaxtahækkanir Seðlabankans skapa ofurhagnað fjármálageirans á kostnað almennings.
Framsetning fjárlagafrumvarpsins er blekkjandi svo ekki sé meira sagt. Þróun skulda ríkissjóðs, samkvæmt frumvarpinu, er borin saman við Ríkisfjármálaáætlun 2021-2025 – marklausa áætlun sem sett var fram í miðju Covid. Hvers vegna var ekki miðað við gildandi Ríkisfjármálaáætlun? Jú, vegna þess að fölsunin lítur betur út fyrir ríkisstjórnina – sem breytir því ekki að um fölsun er að ræða. Fleiri dæmi eru um slíkt í kynningu á frumvarpinu.
Tekjuöflunin sem boðuð er í frumvarpinu er síðan stórfurðuleg, þótt ekki komi hún á óvart hjá ríkisstjórn sem virðist tímaflakkari frá áttunda áratug síðustu aldar. Allir vita að nauðsynlegt er að breyta gjaldtöku ríkisins af bílum og umferð vegna yfirstandandi orkuskipta. Ríkisstjórnin hafði kjörið tækifæri til að marka stefnu í þeim efnum, færa gjaldtöku úr innflutningsgjöldum, vörugjöldum og öðrum slíkum gamaldags og úreltum aðferðum við tekjuöflun. Vitanlega á gjaldtaka að miðast við notkun á innviðum samgöngukerfisins. Engin stefnumörkun kemur frá þessari ríkisstjórn um það. Hækkun vörugjalda á bifreiðir kemur illa við þá hópa sem minnst hafa milli handanna. Bílverð hækkar og hefur áhrif til hækkunar neysluvísitölunnar.
Þá eru gamlir draugar, á borð við hækkun gjaldtöku af eldsneyti, áfengi og tóbaki, dæmigerðir fyrir ráðþrota og lúna stjórnmálamenn frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Við eigum evrópumet (sennilega heimsmet líka) í áfengissköttum og samt á að hækka þá meira. Þetta fer beint inn í vísitöluna. Gott innlegg í komandi kjaraviðræður, eða hvað? Er fjármálaráðherra ef til vill að láta á það reyna hvenær áfengisverð hér á landi er orðið svo svívirðilega hátt að ferðamönnum ofbjóði endanlega.
Ólafur Ragnar Grímsson þótti skattaglaður fjármálaráðherra fyrir rúmum þremur áratugum. Fékk hann viðurnefnið SKATTMANN. Nokkrum árum síðar var hann orðinn forseti Íslands.
Heldur Bjarni Benediktsson máski að þarna á milli sé orsakasamhengi. Hefur hann augastað á Bessastöðum? Heldur hann að ef hann nær að toppa skattgleði Ólafs Ragnars geti hann líka orðið forseti? Bjarni er réttnefndur SKATTMANN. Hann herjar á fyrirtæki og heimili með skattahækkunum á sama tíma og hann gefur auðugustu fjölskyldum landsins fiskinn í sjónum. Óvíst er þó að það fleyti honum á Bessastaði.
- Ólafur Arnarson