Ef við reynum að setja okkur í spor húsdýra á Íslandi hvarflar það að manni að bæði í samfélagi manna og dýra skuli sumir jafnari en aðrir. Um það hefur Orwell skrifað í Animal Farm. En áður voru það svínin sem þóttu best. Nú er öldin önnur, enda gerist okkar saga í öðru landi en hjá Orwell.
Íslendingar og Orwell geta þó fallist á það sameiginlega að það ríkir stéttaskipting í öllum heimum, bæði heimum húsdýranna og mannanna. Hjá Íslendingum hefur það lengi verið norm eða viðmið að vera metnaðargjarn sjálfstæðismaður eða vel tengdur framsóknarmaður. Sjálfstæðismenn hafa setið efst í fæðukeðjunni, hlotið helstu tækifæri til framgangs, vanist því að fá gott fóður og atlæti og lagt fram sitthvað í staðinn. Framsóknarmenn hafa ekki síst flotið áfram á samtryggingunni. Sumir óæðri skoðanahópar hafa mátt hlandbrenna í þröngum stíum á meðan en sú er einmitt einnig saga húsdýranna.
Í heimi dýranna hafa tvær dýrategundir hér á landi deilt helstu forréttindum. Annað er íslenski hesturinn, hitt er íslenska sauðkindin. Ekki er gott að segja hvort dýrið sé fulltrúi hvers í hinum pólitíska mannheimi en ýmsir hallast að því að sauðkindin sé í Framsóknarflokknum en hesturinn í Sjálfstæðisflokknum.
Víkur þá sögu að Ríkisútvarpinu. Fréttastofa Rúv hefur unnið mikilvægt upplýsingastarf með því að flytja fjölmargar fréttir um dýraníð síðustu daga. Fætur kjúklinga eru brenndir af þrengslum og skít. Gyltur í sumum tilfellum hafðar á svo þröngum básum að þær geta ekki rétt úr fótunum. Dýralæknar segja að lög um velferð dýra séu þverbrotin, en allt kemur fyrir ekki.
Á sama tíma njóta hestar og sauðkindur frelsis. Fá grösugustu hagana. Drjúgur hluti þjóðarinnar eltir fénað uppi á fjöllum að hausti. Blikar á fleyga og kátt á hjalla. Ef farið er vel með fé og hesta verða Íslendingar glaðir. Frávik frá góðum aðbúnaði hvað þessa to húsdýrahópa varðar verða beinlínis til þess að ábúðarfullir sjónvarpsfréttamenn eiga ekki í neinum vandræðum með að komast upp Ártúnsbrekkuna, aldrei þessu vant. Þeir gera sér ferðir langt út á land til að spyrja ágengra spurninga um ær og hross í oss og stundum fá kýr að fljóta með. Birta svo sláandi myndir í fréttatímum af býlum þar sem ábúendur eru vondir við þessi dýr. Hún er svo stutt línan frá þeim til okkar.
Kjúklingar og svín hafa ekki sömu réttindi. Þau eru talin af óæðri kynstofnum og stundum nefnd í stórvarasömum málsgreinum þar sem orðið ESB kemur fyrir. Svínið er ekki sérstaklega íslenskt. Það er framleiddur hellingur af því út um allan heim og sömu sögu er að segja um kjúklinga. En engir nema við búum til hið einstæða íslenska lambakjöt. Á sama tíma er hesturinn okkar svo mikið djásn að kallar gjarnan fram meiri tilfinningar en þegar maður hugsar um mann.
Kjörræðismaður Rússa starfar á Sauðákróki. Hann er líka yfirmaður kjötvinnslu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Svo skemmtilega vill til að kjörræðismaðurinn hefur nokkru kostað til að reyna að selja Pútín og annarri rússneskri elítu íslensk lömb á silfurfati. Við höfum áður kostað formúu til að reyna að afla íslenska lambinu þess heiðurs sem það á skilið í amerískum súpermörkuðum. Við viljum kynna okkar stolt fyrir umheiminum – á okkar eigin forsendum – með okkar eigin séríslensku afurðum. Við seljum fisk til útlanda bara til að græða á honum. En við seljum íslenska lambið sem fulltrúa íslensku þjóðarinnar.
Þá er þess ógetið að hesturinn okkar er svo spes að hann fær aldrei að snúa aftur lifandi til baka ef hann fer í ferðalag út fyrir landsteinana. Þar ytra eru líka allskonar veirur og sýklar, sjálfur forsætisráðherra okkar séríslensku þjóðar óttast veirur í erlendu kjöti og snæðir það helst ekki, enda getur bogfrymill í kjöti að hans sögn breytt hegðunarmynstri heilu þjóðanna.
Vonandi verður hegðunarmynstri íslensku þjóðarinnar aldrei breytt. Ef hún myndi breytast vegna einhvers sem hún étur yrðum við öll rugluð í umræðu um grundvallarmuninn á því að fara illa með svín, hænur, sauði eða hesta. Í hinu stóra fullveldissamhengi verður forgangsröðin að vera á hreinu og ekkert er stærri ógn við sjálfsmynd Íslenjdinga en erlendur bogfrymill.
Á Íslandi hefur löngum þótt skást að vera hreinræktaður, séríslenskur sauður!