Skandinavískur, módernískur og fúnkis stíll á heimili Guðnýjar

Guðný Magnúsdóttir leirlistakona hefur mikinn áhuga á listhandverki, hönnun og myndlist og ber hennar fallega og listræna heimili þess sterk merki. Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Guðnýju á heimili hennar í Hlíðunum og vinnustofu, Studio Úmbru, á Kársnesinu þar sem persónuleiki hennar í listrænni sköpun skín í gegn.

„Ég er mjög hrifin af tímalausri fallegri hönnun og samtímamyndlist. Líklega er stíllinn á mínu heimili frekar skandinavískur, módernískur og fúnkis, en ég er mjög hrifin af húsgögnum frá Bauhaus tímanum og tengi þau öðru yngra,“segir Guðný. Á heimili hennar má sjá mikið af fallegu handverki og hönnun sem fangar augað.

FBL Guðný Magnúsdóttir 4.jpeg

„Ég hef vissa ástríðu fyrir samtímamyndlist og á nokkur verk eftir ýmsa listamenn bæði íslenska og erlenda, sem mér finnst gaman að stilla saman og breyti upphengi eftir atvikum – milli ára.“ Guðný bjó í nokkur ár í Finnlandi og er mjög hrifin af finnskri hönnun og handverki. „Ég heillaðist af þeirra virðingu fyrir fallegum hlutum, hönnun og myndlist sem ég varð áskynja hvarvetna þar í landi,“segir Guðný og á heimili hennar má sjá hve mikið hún leggur upp úr að hafa vandað handverk kringum sig.

FBL Guðný Magnúsdóttir 7.jpeg

Guðný hefur mikla ástríðu fyrir að skapa úr leir og sækir innblástur í verk sín í myndlist, hönnun og sögu. „Einnig í áhrif náttúru, ferðalaga og umgengni við áhugavert fólk, hvort sem er í þá muni sem ég skapa sjálf eða hvernig ég skipulegg umhverfi mitt.“

Missið ekki af einstakri heimsókn Sjafnar á listrænt heimili fagurkerans og leirlistakonunnar Guðnýjar og vinnustofuna þar sem töfrarnir í sköpun og list gerast í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut.

Þátturinn er frumsýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00.