Framundan er hrekkjavakan ógurlega sem hefur verið að ryðjast sér til rúms hjá íslenskum fjölskyldum. Ein af þeim sem fer alla leið þegar kemur að hrekkjavökuhátíðinni er Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingarmeistari með meiru. Arna skreytir heimilið hátt og lágt, sker út grasker með fjölskyldunni, velur búningaþema fyrir ár hvert og til að toppa hrekkjavökuna heldur Arna heljarinnar hrekkjavökumatarboð þar sem veigarnar eru allar tegndar hrekkjavökunni á einn eða annan hátt. Sjöfn Þórðar heimsótti Örnu á dögunum í þættinum Fasteignir og heimili þegar undirbúningur fyrir hrekkjavökuna stóð sem hæst. Sjöfn fékk Örnu til að segja frá uppskriftinni af Sjölaga Kóngulóarídýfunni sem er tilvalinn réttur til að bjóða uppá á hrekkjavökunni sem er fimmtudaginn 31.október næstkomandi. Gott er að byrja að undirbúa vökuna og meðal annars með því að velja þá rétti sem gaman væri að bjóða uppá í tilefni vökunnar.
Sjölaga Kóngulóarídýfan að hætti Örnu
1 dós refried beans
1 dós sýrður rjómi
1 krukka guacamole
1 dós chunky salsa
1 poki rifinn ostur (mozzarella er góður)
jalapenos eftir smekk, má sleppa
svartar ólífur eftir smekk
1 dós hakkaðir tómatar eða saxaðir ferskir tómatar eftir smekk
Byrjið á því að setja allt hráefnið í fat eða skál í þessari röð, lag fyrir lag. Smyrja ofan á hvert annað, eins og lagköku. Vert er að taka smá af sýrða rjómanum og nýta til að sprauta yfir efsta lag ídýfunnar eins og kóngulóarvef. Það kemur skemmtilega út. Hægt er að skreyta ídýfuna með því að strá hökkuðum tómötum og sneiðum af svörtum ólífum meðfram fatinu eða skálinni allan hringinn til að gera ídýfuna fallegri fyrir augað. Ef þið komist yfir plastkónguló er upplagt að skreyta með einni slíkri. Leyfið hugmyndarfluginu að spreyta sig. Berið fram nachos flögur að eigin vali með ídýfunni. Hægt er að sjá þáttinn með Örnu Guðlaugu á eftirfarandi slóð: http://www.hringbraut.is/sjonvarp/thaettir/fasteignir-og-heimili/fasteignir-og-heimili-14-oktober-2019
Gleðilega hrekkjavöku.