Sjónvarpsþátturinn Matur og heimili verður að vanda á dagskrá Hringbrautar í kvöld. Að þessu sinni leggur Sjöfn Þórðar leið sína út í Flatey í Breiðafirði sem er mikil náttúruperla og þar er finna elstu þorpsmynd landsins. Sjöfn heimsækir hjónin Hörð Gunnarsson og Jónu Dísu Sævarsdóttur og fjölskyldu þeirra heim í ævafornt býli, Vesturbúðir. Til fróðleiks má nefna að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnuaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís.
Húsin eiga sér sögu
Öll húsin í Flatey eiga sér sögu og eru í einkaeigu og híbýlin bera nafn. Í dag eru flest húsin eru notuð sem sumarhús og iðar því eyjan full af mannlífi á sumrin. Þegar byggðin í Flatey stóð í sem mestum blóma um aldamótin 1900 voru íbúarnir um 400 talsins. Lagðist byggðin síðan að mestu af en þorpið er ein heildstæðasta þorpsmynd sem varðveist hefur á Íslandi og þar er eins og tíminn hafi staðið í stað frá upphafi 20.aldar. Eftirsóknarvert þykir að eiga sumarhús í Flatey vegna góðs veðurfars og kyrrsældar.
Vesturbúðum var síðan breytt í íbúðarhús árið 1938. Í dag skiptast afkomendur síðustu ábúenda á að njóta verunnar í Vesturbúðum og þeirra töfra sem fylgja því að vera út í Flatey sem oft hefur verið kölluð matarkista Breiðafjarðar.
„Faðir Gunnar, sem er látinn, var einn af stórum systkina hópi sem ólst þarna upp eftir að afi, Þórður Valgeir Benjamínsson, flytur í Flatey úr Hergilsey,“ segir Hörður. En 12. ágúst 1946 kaupir Þórður, afi Harðar, húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. „Afi var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans, amma, var Þorbjörg Sigurðardóttir,“ segir Hörður.
Veiða sjálf í matinn
Jóna Dísa eiginkona Harðar, veit fátt betra en að koma út í eyju og fá allan barnahópinn með. „Það er þetta algjöra tímaleysi sem við búum við hér í þessari náttúruparadís. Svo skreppa þau á bátnum út á sjó með pabba sínum og afa að veiða í matinn. Barnabörnin elska þetta líf út í eyju. Þeim þykir ekkert betra en að fá ný veiddan þorsk sem þau veiða sjálf í hádegismatinn,“ segir Jóna Dísa og brosir. Gjöful fiskimið liggja allt í kringum eyjuna og má með sanni segja að Flatey sé gjöful matarkista og ljúft er að njóta ferskra afurða úr firðinum. Vesturbúðir eru staðsettar við miðju gamla þorpsins, við hafið og þeim fylgir til að mynda bátaskýli sem kemur sér einstaklega vel fyrir stórfjölskylduna sem iðulega stundar fiskveiðar.
Upprunalega eldhúsið stendur
Föðursystir Harðar, Sigurbjörg sú yngsta í systkinahópnum, man vel þá tíð að búa út í Flatey með foreldrum sínum og systkinum og veit ekkert betra en að vera út í paradís. „Ég man vel þá tíð þegar ég sat hér í eldhússkúffunni og fylgdist með mömmu og vinkonu minni í eldhúsinu, eldhúsið er alveg eins og það var og skúffan er hér enn,“ segir Sigurbjörg dreymin á svip.
Meira lífið í Vesturbúðum fyrr og nú í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar í kvöld á Hringbraut klukkan 19.00 beint eftir Fréttavaktinni og aftur klukkan 21.00.
Hér má sjá myndbrot úr þætti kvöldsins: