Sjóðsugur Íslands!
Sjóðsuga er nýyrði vikunnar og kom fram á facebook í fyrradag. Hún heitir Hildur sem á heiðurinn að hugtakinu en því miður veit ég ekki föðurnafn Hildar.
Hildur notaði orðið \"sjóðsugu\" um Árna Sigfússon sem umboðsmaður alþingis hefur nú úrskurðað að hafi framið lögbrot þegar hann úthlutaði bróður sínum styrk úr einhverjum sjóði. Ragnheiður Elín Árnadóttir skipaði Árna til trúnaðarstarfans. Hin sama Ragnheiður Elín og skipaði Baldur Guðlaugsson til mikilla trúnaðarstarfa til að velja yfirmann í ráðuneyti, skömmu eftir að Baldur sat af sér fyrir stórfelldan glæp. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, sagði í rannsóknarskýrslu Alþingis að Baldur Guðlaugs hefði fyrir hrun verið valdamesti maður hér á landi. Og enn er hann að þrátt fyrir háalvarleg brot samkvæmt Hæstarétti. Líkt og Árni Sigfússon er alltaf að og virðist sívinsæll í kreðsunni, sem þó ber mikla ábyrgð á mengandi og ósjálfbærri virkjanastefnu og ömulegum fjárhag Reykjanesbæjar.
Sjóðsugur Íslands. Þær sjá um sína. Ein úthlutar öðrum sem svo endurgeldur sogið. Almannafé sogið sem aldrei fyrr, sugurnar vanar að fara með almannafé eins og þær eigi það. Helmingaskipti í atvinnulífi, helmingaskipti er varða helstu auðlindir almennings.
Sjóðsugur ríma við blóðsugur. Þær eru á góðri leið með að sjúga allt blóð úr íslensku þjóðinni.
Er engin leið að losna við þessi sníkjudýr?
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)