Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála hefur nú tilkynnt um stofnun sjóðs til að efla samstarf þeirra sjö háskóla sem starfandi eru í þessu 380 þúsund manna smáríki okkar. Þetta vekur furðu enda hefði verið eðlilegt og sjálfsagt verkefni ráðherra þessa málaflokks að hafa forystu um sameiningu og fækkun háskóla á Íslandi. Það er eins og hver önnur firra að halda úti sjö háskólum hér á landi og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.
Um áratugaskeið hefur það verið eitt af uppáhalds viðfangsefnum Sjálfstæðisflokksins að berjast gegn sjóðasukki. Þess vegna er það alveg þvert á stefnu flokksins að stofna nú tveggja milljarða sjóð til að ráðherra geti útdeilt og skammtað fjármuni ríkisins til verkefna sem sagt er að eigi að auka samstarf háskólanna í landinu. Nær hefði verið að fækka háskólunum, spara og einfalda rekstur og stjórnun þeirra. Hægt er að benda á að fullkomlega eðlilegt væri að Háskólinn í Reykjavík tæki yfir starfsemi háskólans á Bifröst og rekstur Keilis. Að sama skapi væri eðlilegt að Háskóli Íslands ræki útibú á Akureyri og hefði bændaskólana einnig undir sínum hatti. Með þessu yrðu tveir enn öflugri háskólar í landinu og gríðarlegur stjórnunarkostnaður myndi sparast. Slíkt væri mun heilbrigðara fyrirkomulag en það sem nú stendur til að útfæra í formi sjóðs sem ráðherra getur ráðskast með.
Á tímum vinstri stjórna á síðustu öld var ávallt tilhneyging til að stofna sjóði til að stjórnmálamenn gætu skammtað fjármuni eftir eigin höfði, einkum út í kjördæmi sín. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn þessu og talaði fjálglega um „sjóðasukk“ sem var vel til fundið réttnefni. Þegar flokkurinn komst til valda árið 1991 var gegnið rösklega fram í að leggja niður sjóði og stofnanir sem vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar hafði komið á fót meðal annars þegar stuðningur Stefáns Valgeirssonar við stjórnina var keyptur með gegndarlausu sjóðasukki gegn hörðum andmælum Sjálfstæðisflokksins. Þarna stóð flokkurinn vel að verki og fékk góðan stuðning kjósenda til þess.
Nú eru breyttir tímar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir sjóðasukki, ekkert síður en þeir flokkar sem talsmenn flokksins kalla vinstri flokka, enda er hann fyrir löngu búinn að gleyma því góða slagorði sínu BÁKNIÐ BURT. Þetta nýjast útspil um stofnun óþarfa sjóðs er sennilega bara í góðum takti við annað stefnu- og geðleysi flokksforystunnar.
- Ólafur Arnarson