Nú er að koma á daginn það sem Náttfari hélt fram þann 15. júní sl. að Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum muni bjóða sig fram í fyrsta sæti hjá sjálfstæðismönnum í Suðurlandskjördæmi og stefni ótrauður á að fella Ragnheiði Elínu Árnadóttur, hinn verklitla ráðherra flokksins.
Þegar Náttfari hélt þessu fram fyrir 5 vikum fékk hann viðbrögð frá forystumönnum í Sjálfstæðisflokknum sem héldu því fram að hér væri á ferðinni innantómt og skaðlegt slúður. Annað er nú að koma á daginn. Orðrétt sagði Náttfari:
“Elliði Vignisson bæjarstjóri í Eyjum hefur ákveðið að bjóða sig fram í efsta sæti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi í komandi prófkjöri. Mikill vilji er til að fella Ragnheiði Elínu Árandóttur úr forystusætinu en hún þykir ekki hafa staðið sig nógu vel sem ráðherra.”
Framboð Elliða eru talsverð tíðindi því hingað til hefur ekki tíðkast að hjólað sé í sitjandi ráðherra sem leiða lista í kjördæmum sínum. Yfirleitt standa flokksmenn þétt að baki slíkum ráðherrum en það virðist vera liðin tíð, alla vega í Sjálfstæðisflokknum. Sama mun væntanlega gerast í Reykjavík þar sem Illugi Gunnarsson leiddi annan af tveimur listum í síðustu kosningum og Hanna Birna hinn. Hún mun ekki bjóða sig fram eins og kunnugt er og flestir gera ráð fyrir því að Ólöf Nordal og Guðlaugur Þór Þórðarson vinni tvö efstu sætin í prófkjöri flokksins og leiði því hvort sinn listann.
Falli Ragnheiður Elín úr fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi þá gæti tveggja ráðherra flokksins beðið þau örlög að vera hafnað með þessum hætti. Það yrði saga til næsta bæjar.
Talið er að Unnur Brá Konráðsdóttir standi vel að vígi í kjördæminu og að hún muni halda öðru sætinu. Því gæti Ragnheiður Elín fallið niður í þriðja sæti sem mundi væntanlega marka endalok hennar í stjórnmálum.
Bjarni Benediktsson er á bak við framboð Elliða en hann hefur leynt og ljóst viljað losna við Ragnheiði Elínu. Flokksforystan hefur gengið talsvert á eftir Elliða og á meðan hann hafði ekki gefið grænt ljós var leitað til fleiri um að fara fram í efsta sætið. Einn þeirra er Páll Magnússon sem reynt var að fá í framboð fyrir flokkinn. Það eru einu tilraunir flokka sem hafa verið gerðar til að fá Pál Magnússon í framboð. Hann gaf til kynna í viðtali við DV um síðustu helgi að verið væri að skora á hann að fara í framboð. Það er mjög orðum aukið enda hefur enginn sýnt því áhuga nema Bjarni Benediktsson á meðan Elliði hafði ekki fallist á að fara fram. Nú er þetta vandamál leyst hjá flokknum og þá er ekki lengur eftirspurn eftir Páli. Meira framboð af Páli Magnússyni ef eftirspurn.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum prófkjörsslag sjálfstæðismanna á Suðurlandi. Menn skyldu ekki afskrifa Ragnheiði Elínu fyrirfram. Þó hún hafi reynst verklaus og linur ráherra er á það að líta að hún er boðin fram af Suðurnesjamönnum enda ættuð úr Keflavík. Á Suðurnesjum býr nær helmingur kjósenda í öllu kjördæminu en innan við tíundi hluti í Vestmannaeyjum. Nú er spurningin hvort hrepparígur og svæðahugsun verður ríkjandi eða kalt mat á hæfni frambjóðenda þegar kemur að þessari hörðu rimmu milli Ragnheiðar Elínar og Elliða.