Taugaveiklunarkenndur hræðsluáróður stuðningsmanna Bjarna Benediktssonar gengur út á að halda því að landsfundarfulltrúum að ríkisstjórnin sé í hættu ef Bjarni tapar í formannskjörinu um næstu helgi. Vissir fjölmiðlar hafa tekið undir þetta og vísað til ummæla sumra háskólamanna. Fræðimenn eru þó alls ekki á einu máli um þetta. Þannig sagði prófessor Eiríkur Bergmann á RÚV í gær að hann teldi enga hættu felast í því fyrir ríkisstjórnina að Guðlaugur Þór færi með sigur af hólmi.
Vitanlega er gersamlega galið að halda því fram að núverandi ríkisstjórn sé ríkisstjórn þriggja formanna en ekki þriggja flokka. Fengist slíkt staðfest staðfest væru það mikil tíðindi og ekkert annað en blaut tuska framan í flokksfólk þessara þriggja flokka. Að ekki sé nú talað um óbreytta þingmenn þeirra. Væri þá litið á þá sem einfalt uppfyllingarefni. Voru þeir ekki valdir af kjósendum?
Rétt er að rifja upp að Guðlaugur Þór hefur átt sæti í ríkisstjórn undanfarin fimm ár með Vinstri grænum og Framsókn. Ekki er annað að sjá en að prýðilegt samkomulag hafi verið milli hans og forystumanna þessara flokka. Enginn opinber ágreiningur hefur birst milli hans og þeirra.
Eini opinberi ágreiningurinn innan ráðherraliðsins er milli Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra um innflytjendamál. Sá ágreiningur er mikill og vaxandi. Þeir Jón og Guðmundur hafa ekki reynt að breiða yfir þann ágreining enda tala þeir með mismunandi hætti inn í hópa síns flokksfólks, hvor í sína áttina.
Þessi umræða mun ekki gera annað en hjálpa Guðlaugi Þór í baráttunni. Við sem höfum setið landsfundi Sjálfstæðisflokksins vitum hvernig stemmningin er á þeim fundum. Þar koma saman fulltrúar flokksins víða að og láta ekki segja sér fyrir verkum. Síst af öllu vilja þeir láta sósíalista eða framsóknarmenn taka ákvarðanir fyrir sig. Þeir velja þá forystu sem þeir telja að gagnist Sjálfstæðisflokknum best í baráttunni við aðra flokka. Landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sækja sér ekki ráðgjöf til pólitískra andstæðinga þegar þeir velja forystumenn sína.
Í 13 ára formannstíð Bjarna Benediktssonar hefur Sjálfstæðisflokkurinn skroppið saman úr því að vera 37 prósent flokkur í að vera 24 prósenta flokkur. Þriðjungur kjósenda flokksins hefur yfirgefið hann á vakt Bjarna. Þetta svíður sjálfstæðismönnum sem láta sig hag flokksins miklu varða. Það er einmitt fólkið sem sækir landsfundi.
Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins óttast að fylgi hans muni aukast ef Guðlaugur Þór sigrar og tekur við formennsku. Hann er maður fólksins en ekki yfirstéttarinnar. Þess vegna kemur ekki á óvart að fulltrúar annarra flokka haldi uppi hræðsuáróðri gegn honum. En landsfundarfulltrúar láta ekki blekkjast.
- Ólafur Arnarson.