Í Fréttablaðinu, föstudaginn 3. september, er rætt við bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Akraness og Árborgar um gríðarlegan uppgang og fordæmalausa íbúafjölgun í bæjarfélögunum.
Framsýni og stórhugur ræður för í þessum sveitarfélögum, lóðarskortur er enginn og ekki sama bóla á fasteignamarkaði og hér á sjálfu höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að þessi þrjú bæjarfélög tilheyri nú í raun atvinnusvæði höfuðborgarinnar.
Innviðauppbygging á vegum sveitarfélaganna hefur gengið með ágætum en helsti vandinn, að sögn bæjarstjóranna, er að ríkið hefur dregið lappirnar varðandi þau atriði sem heyra undir það. Nefnd eru sem dæmi heilbrigðismál, samgöngur, lögreglu- og menntamál sem ríkið sinni alls ekki nógu vel á vaxtarsvæðum. Ein ástæða þess sé sú að ríkið ákvarði fjárframlög út frá landsmeðaltali fólksfjölgunar en ekki raunverulegri fjölgun á hverju svæði. Þetta geti komið ágætlega út þar sem mannfjölgun sé 1 prósent á ári en sé ekki í lagi þar sem fjölgunin sé 10 prósent.
Þessi byggðarlög eiga það sameiginlegt að vera mestu uppgangssvæði landsins. Þau eiga það einnig sameiginlegt að þessi mikli árangur og vöxtur hefur náðst án Sjálfstæðisflokksins. Hann er í minnihluta í öllum þremur bæjarstjórnunum.
Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í ríkisstjórninni sem er helsti flöskuhálsinn á uppbyggingu innviða til að taka við fólksfjölguninni og vextinum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn samfellt frá 1991 ef frá eru talin árin 2009-2013. Hann hefur setið í ríkisstjórn í 26 af síðustu 30 árum.
Sjálfstæðisflokkurinn er bersýnilega orðinn þreyttur, uppgefinn, andlaus og lúinn af langri stjórnarsetu. Flokkurinn hefur einangrast frá kjósendum sínum og er orðinn skrumskæling á sjálfum sér – sjálfstætt vandamál og flöskuháls fyrir vöxt og uppbyggingu í byggðarlögum í nágrenni höfuðborgarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki nauðsynlegur við stjórnvölinn, hvorki hjá sveitarfélögum né ríki. Hann ætti að verða hvíldinni feginn og nota tækifærið til að endurnýja samband sitt við kjósendur í landinu – slíta sambandi sínu við sterka sérhagsmunaaðila í sjávarútvegi og huga að almannahagsmunum. Kannski gæti slík nálgun stöðvað flótta kjósenda frá flokknum.
Sjálfstæðismenn tifa á því að himinn og jörð muni farast og sólin hætti að koma upp detti flokkurinn úr ríkisstjórn. Farsæl reynsla á sveitarstjórnarstiginu sýnir svart á hvítu að svona áróður er innihaldslaus með öllu.
Engin áhætta felst í því að byggja nýja framtíð og gefa Sjálfstæðisflokknum frí.
- Ólafur Arnarson