Skoðunarkönnunin var unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Vikudag og birt er a vef hans í morgun. Hún kannaði fylgi þeirra sjö flokka sem bjóða fram á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, með 28,6 prósenta fylgi og bætir þannig við sig einum bæjarfulltrúa, en hann er nú með þrjá. Næst stærstu flokkarnir eru Samfylking og L-listinn, sem mælast með 19,3 og 19 prósenta fylgi, en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur. Báðir flokkar halda sínum tveimur bæjarfulltrúum hvor. Vinstri græn eru með 10,7 prósenta fylgi og fá einn bæjarfulltrúa, eins og í síðustu kosningum.
Framsóknarflokkurinn tapar fylgi samkvæmt könnuninni og mælast nú með 9,6 prósenta fylgi. Flokkurinn tapar því einum bæjarfulltrúa og fengju einn mann kjörinn. Miðflokkurinn, sem er að bjóða fram í fyrsta skipti, mælist með 7,8 prósenta fylgi og fengju einn bæjarfulltrúa. Píratar, sem einnig eru að bjóða fram í fyrsta sinn í sveitarfélaginu, næðu ekki inn manni og mælast með 5,1 prósent.
Samkvæmt könnuninni yrðu eftirfarandi 11 frambjóðendur bæjarfulltrúar á Akureyri:
Sjálfstæðisflokkur: Gunnar Gíslason, Eva Hrund Þórsdóttir, Þórhallur Jónsson og Lára Halldóra Eiríksdóttir.
Samfylking: Hilda Jana Gísladóttir og Dagbjört Elín Pálsdóttir.
L-listi: Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson
Vinstri græn: Sóley Björk Stefánsdóttir
Framsóknarflokkur: Guðmundur Baldvin Guðmundsson
Miðflokkur: Hlynur Jóhannsson
Samkvæmt þessu mundu sex ný andlit taka sæti í bæjarstjórn: Þórhallur og Lára frá Sjálfstæðisflokki, Halla Björk og Andri frá L-lista, Hilda Jana frá Samfylkingu og Hlynur frá Miðflokki, en Halla Björk sat raunar fyrr á tíð í bæjarstjórn fyrir L-listann.