Sjálfstæðisflokkurinn nötrar af stressi. Er að hefjast atlaga að gömlu körlunum?

Tveir gamlir sjálfstæðismenn tókust á í Silfrinu í morgun vegna greinarskrifa. Friðjón Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, vinur hans og ævarandi handlangari hjá formanninum, skrifaði grein sem lýsti Sjálfstæðisflokknum stöðnuðum, gamaldags og á móti breytingum sem horfa til framfara. Þessi gagnrýni þótti sæta tíðindum frá nánum vini formanns flokksins. Friðjón á jafnframt sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og sinnir einnig trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, auk þess að sinna ráðgjöf fyrir þau ráðuneyti sem flokkurinn stýrir. 

Friðjón kom meðal annars að því sem ráðgjafi að reyna að bjarga málum fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í svonefndu lekamáli sem leiddi til þess að hún varð að segja af sér sem innanríkisráðherra og hætti síðar í stjórnmálum. Friðjóni brá fyrir í sjónvarpsfréttum þegar mest gekk þar á. Hann réði síðar aðstoðarmann Hönnu, Gísla Frey Valdórsson, til KOM, sem er almannatengslafyrirtæk Friðjóns, en Gísli tók á sig afbrotin sem innanríkisráðuneytið framdi og hlaut dóm.

Brynjar Níelsson, þingmaður, svaraði fyrrnefndri grein Friðjóns og var bæði móðgaður og sár. Brynjar óttast mest að málflutningur af þessu tagi geti skaðað flokkinn. Hann virðist ekki átta sig á því að Friðjón sagði ekki annað í grein sinni en það sem öllum er ljóst sem fylgjast með stjórnmálum. Flokkurinn stendur nú fyrir kyrrstöðu í mikilvægum málaflokkum. Hann á sæti í vinstristjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns sósíalista, og til þess að komast í stjórn með henni þurfti flokkur Brynjars að semja um kyrrstöðu í fjögur ár.

Flokkurinn stendur þannig vörð um hagsmuni hinna fáu og ríku í sjávarútvegi. Hann lætur það viðgangast að veiðileyfagjöld hafa lækkað úr fimmtán milljörðum króna í upphafi kjörtímabilsins niður í fimm milljarða. Landbúnaðarsukkið fær að standa óhaggað. Útþensla ríkisbáknsins hefur sjaldan verið meiri en nú, ríkisskuldir aukast dag frá degi án þess að mikið sé aðhafst til að selja ríkiseignir til að hamla gegn skuldasöfnun en ríkið gæti létt róðurinn með því að selja ríkiseignir fyrir mörg hundruð milljarða króna. Rammaáætlun vegna orkunýtingar er í uppnámi og Vinstri grænir berjast fyrir því að breyta þriðjungi landsins í lokaðan hálendisþjóðgarð þar sem virkjanir yrðu bannaðar og öll umferð takmörkuð. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um íslensku krónuna sem blaktir eins og lauf í vindi. Gengisfelling krónunnar á síðasta ári nam um tólf prósentum og enginn veit hvað gerist á næstunni varðandi þróun þessarar örmynntar. Ísland er aðila að EES og hefur tekið upp 80 prósent af regluverki ESB en Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að taka skrefið alla leið og hafa eitthvað um þróun mála að segja með aðkomu að stjórnun sambandsins. Flokkurinn þorir engu á þessu sviði og hefur þá framtíðarsýn að viðhalda minnsta og veikasta myntkerfi í heimi, íslenskri örkrónu, fyrir 360.000 manna smáríki. Þá virðist flokkurinn vera sáttur við að fólk á Akranesi hafi tvö atkvæði í Alþingiskosningum á meðan Friðjón og Bjarni hafa eitt atkvæði í Garðabæ eins og Brynjar hefur í Reykjavík.

Er nema von að Friðjón miðstjórnarmaður hafi hrokkið upp í aðdraganda kosninga og sagt sannleikann um stöðnun Sjálfstæðisflokksins?

Brynjar pakkar svo í vörn þegar hann birtir svargrein sína. En ætli hann sé svo ósammála? Er hann ekki bara búinn að koma auga á ástæður þess að Friðjón stígur fram?

Í lok umræðunnar í Silfrinu nefndi hann glottandi að Friðjón birti grein sína í ákveðnum tilgangi. Brynjar sagði að Friðjón væri með „agenda“. Þegar á það er bent þá blasir við að hugsunin af hálfu Friðjóns er alveg skýr. Ekki bara einhver létt málfundaræfing. Hann er að ýta úr vör skipulagðri aðför að öllum gömlu körlunum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Menn eru að átta sig á því að þar verður að yngja verulega upp fyrir komandi kosningar og Friðjón er nú að hrinda af stað skipulegri aðför að nokkrum gömlum þingmönnum á sjötugsaldri sem á að víkja til hliðar og hleypa yngra fólki að til að freista þess að hysja upp ímynd - og fylgi - flokksins.

Það er vitanlega full ástæða til að hafa áhyggjur af fylgi Sjálfstæðisflokksins. Stöð 2 birti nýja skoðanakönnun frá Maskínu í liðinni viku. Þar mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 21,3 prósent fylgi og 14 þingmenn. Hafði tapað tveimur sætum frá síðustu kosningum þar sem þingsæti flokksins voru í sögulegu lágmarki. Brynjari er tíðrætt um „smáflokka“ sem hafa að hans mati skemmt fyrir flokki hans. Viðreisn er einn þeirra flokka og mældist nú með 11,3 prósent sem er 53 prósent af fylgi Sjálfstæðisflokksins samkvæmt skoðanakönnun Maskínu. Brynjar þarf að svara því hvenær flokkur telst vera „smáflokkur“ og hvenær ekki. Hve langt niður má Sjálfstæðisflokkurinn fara til að teljast „smáflokkur“? Ekki er lengra síðan en í kosningunum 2007 að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 37 prósent fylgi og 25 þingmenn kjörna. Þá var Geir Haarde formaður flokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður.

Vitanlega líður Sjálfstæðismönnum illa með þá þróun að flokkurinn sé kominn niður undir 20 prósent fylgi undir þeirra forystu. Nú er greinilega hafin leit af sökudólgum. Það er svo annað mál hvort forystan þarf ekki að líta sér nær til að greina vanda flokksins. Það mun ekki duga Sjálfstæðisflokknum að losa sig við þá þingmenn sem eru á sjötugsaldri. Með þeim færi einnig dýrmæt þingreynsla og lífsreynsla.

Páll Magnússon verður 67 ára í kosningunum. Ásmundur Friðriksson verður þá 65 ára. Jón Gunnarsson verður einnig 65 ára í haust. Kristján Þór Júlíusson verður 64 ára. Óli Björn Kárason verður 61 árs eins og Brynjar Níelsson. Þá er viðbúið að Vilhjálmur Bjarnason verði kominn í framboð fyrir flokkinn ofarlega á lista. Hann verður 69 ára á kjördag og hefur látið þess getið að hann sé þrátt fyrir allt yngri en forseti Bandaríkjanna, Bretadrottning og meira að segja yngri en Karl ríkisarfi Breta. Villi segir að því sé ekkert að óttast!

Sennilega er kenning Brynjars Níelssonar rétt. Friðjón reynir nú að ýta af stað aldurstengdri aðför að nokkrum karlkyns þingmönnum flokksins. Væntanlega með blessun formanns Sjálfstæðisflokksins. Valdaskjálftinn er að verða áþreifanlegur.