Sjálfstæðisflokkurinn í sárum eftir fall sigríðar

Forysta Sjálfstæðisflokksins átti enga aðra kosti en að fórna Sigríði Andersen eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í gær. Mörgum þykir þetta sár niðurstaða einkum vegna þess hve fátækur flokkurinn er af konum í forystunni. Einungis 4 konur eiga nú sæti á Alþingi á vegum flokksins. Það verður því vandasamt að finna aðra konu í þingflokknum til að taka nú við af Sigríði. Það yrði þá að vera annaðhvort Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eða Bryndís Haraldsdóttir. Hvorug þeirra er talin geta valdið ráðherraembætti.

 

Hvað gerir flokkurinn þá? Sækir hann konu út fyrir þingflokkinn, skipar hann karlmann úr þingflokknum í embættið eða bætir einhver núverandi ráðherra við sig ráðherraembætti Sigríðar?

 

Nokkrir kostir eru í stöðunni. Ekki er gert ráð fyrir að Sigríður Andersen eigi afturkvæmt í ráðherraembætti. Málsmeðferð mun taka langan tíma, þess vegna hálft ár. Alsendis er óvíst að ríkisstjórnin lifi svo lengi. En þó hún héldi völdum fram á haust er ekki hægt að spá endurkomu Sigríðar í ráðherrastól.

 

Konur í flokknum munu væntanlega sækja það fast að kona verði áfram í þessu embætti. Einhverjum gæti dottið í hug að gera Unni Brá Konráðsdóttur, varaþingmann, að ráðherra. Hún er fyrrverandi forseti Alþingis og löglærð. Hún á nú sæti á þingi sem varamaður Ásmundar Friðrikssonar sem legið hefur á sjúkrahúsi. Fullvíst má telja að Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, tæki þessu afar illa og væri vís með að hóta öllu illu.

 

Gefist flokkurinn upp á því að finna konu í embættið, þá opnast margir kostir. Birgir Ármannsson er lögfræðingur og gæti tekið við embættinu. En á það er einnig bent að ekki er áskilið að dómsmálaráðherra sé löglærður. Þannig gengdu nokkrir menn embættum dómsmálaráðherra á árum áður án þess að hafa lögfræðimenntun. Dæmi um það eru Jón Helgason, bóndi og framsóknarmaður, Halldór Ásgrímsson, Jón Sigurðsson frá Alþýðuflokki og nýlega Ögmundur Jónasson þegar dómsmálin voru hluti af innanríkisráðuneytinu.

 

Á þessi dæmi gætu Páll Magnússon og Jón Gunnarsson bent en þeir eru líklegir til að sækjast fast eftir ráðherraembætti vegna falls Sigríðar Andersen.