Undanfarið hefur lítið sést til Eyþórs Arnalds í borgarmálunum en Hildi Björnsdóttur hefur þess í stað verið teflt fram. Hún skipaði annað sæti lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum sl. vor þegar flokknum mistókst enn á ný að komast til valda í Reykjavík.
Það er skiljanlegt að flokkurinn reyni að gera einhverjar breytingar því ásjóna hans í Reykjavík er dapurleg. Eyþór hefur alls ekki náð til kjósenda og því skiljanlegt að flokkurinn freisti þess að lyfta ímynd sinni.
Hildi hefur verið teflt fram að undanförnu en það hefur því miður ekki heppnast vel. Stöðugar yfirlýsingar hennar um starf lítils
vinnuhóps sem hún átti að vera í skipta litlu máli enda er kjósendum alveg sama um það hvort Hildur Björnsdóttir starfar í þeirri nefnd eða segir sig úr henni. Fólki gæti ekki verið meira sama!
Ekki er að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn nái að bæta veika stöðu sína í Reykjavík með því að fela Eyþór þegar Hildur nær sér heldur ekki á strik. Flokkurinn situr uppi með þessa niðurstöðu næstu rúmlega þrjú árin og getur ekkert gert annað en að sætta sig við vonlausa forystu Eyþórs Arnalds. Það var hann sem flokkurinn valdi í leiðtogaprófkjöri.
Kjósendur munu ekki verðlauna Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum fyrir að láta Vigdísi Hauksdóttur draga sig sífellt lengra niður á lægsta plan stjórnmálaumræðunnar.
Framundan eru þrjú löng og valdalaus ár hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík þar sem bandamenn flokksins eru Vigdís, Kolbrún og Sanna. Góða skemmtun!