Sjálfstæðisflokkurinn fór illa út úr sveitarstjórnarkosningunum þó bættur árangur frá afhroðinu 2014 í Reykjavík sé plástur á sárin.
Flokkurinn bætti sig um 5% í Reykjavík og náði 30.8% fylgi. Það er næstlakasta útkoma flokksins í Reykjavík frá upphafi, í nær hundrað ár. Árið 2014 galt flokkurinn afhroð í borginni og fékk einungis 25.7%. Lakasta útkoma fram að því var árið 2010 þegar flokkurinn fékk 33.6% undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þá var hruninu kennt um og einnig hræðilegu kjörtímabili í borgarstjórn þegar fjórir borgarstjórar komu við sögu. Nú er niðurstaðan enn verri en í tíð Hönnu Birnu – og engu hruni um að kenna. Nema fylgishruni 2014.
Eftir þessar sveitarstjórnarkosningar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki af miklu að státa utan mikils árangurs í Garðabæ sem er ekkert nýtt.
Flokkurinn tapaði meirihlutanum í Vestmannaeyjum vegna klofnings og innanflokksátaka. Fall Eyjanna er flokknum áfall.
Í 9 af 12 stærstu sveitarfélögunum tapaði flokkurinn fylgi: Mestu í Vestmannaeyjum 27.8%, í Reykjanesbæ 13.6%, fylgistapið í Árborg nam 12,7% og 11.9% í Fjarðarbyggð. Flokkurinn tapaði 9.5% í Mosfellsbæ, 6.3% á Seltjarnarnesi, 3.2% í Kópavogi, 2.9% á Akureyri og 2.1% í Hafnarfirði.
Flokkurinn var í meirihlutasamstarfi sem er fallið í Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Árborg, Akranesi og Fjarðarbyggð. Á næstunni kemur á daginn hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær að halda sér við völd í þessum sveitarfélögum með nýjum meirihluta eða hvort hann verður fyrir utan. Fullvíst má telja að flokkurinn myndi meirihluta í Hafnarfirði og þá líklega með Framsóknarflokki en það er eini flokkurinn sem er sáttur við að Rósa Guðbjartsdóttir verði bæjarstjóri sem hún sækir fast.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í minnihluta á Akureyri og í Reykjanesbæ og verður það væntanlega áfram. Fylgi flokksins í Reykjanesbæ er það langlélegasta sem hann hefur fengið þar, 22.9%. Á árunum 2002 til 2014 var Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meirihluta í bænum þannig að hrunið er tilfinnanlegt.
Á Seltjarnarnesi heldur Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta í bæjarstjórn með minnihluta atkvæða á bak við sig eða 46%. Það er í fyrsta skipti sem flokkurinn er ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig þar. Í Kópavogi hélt meirihlutinn örugglega undir forystu Ármanns Kr. Ólafssonar.
Þegar á allt er litið er niðurstaða þessara kosninga alvarleg viðvörun til Sjálfstæðisflokksins. Hann er víðast hvar á niðurleið.
Rtá.