Sjálfstæðisflokkurinn er óþarfur

Sterkari Sjálfstæðisflokkur nauðsynlegur segir í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu sl. föstudag. Þótt greinin sé nokkuð löng örlar hvergi á rökstuðningi fyrir þessari fullyrðingu höfundar, Sigurðar Jónssonar, sem er fyrrverandi eitt og annað í flokknum: Fyrrverandi bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, fyrrverandi sveitarstjóri í Garði og fyrrverandi sveitarstjóri í Skeiða- og Gnjúpverjahreppi.

Greinin er dæmigerð fyrir viðhorf margra gamalla Sjálfstæðisflokksmanna sem halda að sólin hætti að koma upp missi flokkurinn völdin. Ekki geta þeir rökstutt þessa hræðslu sína, heldur sjá þeir einungis gamla tíma í hyllingum og telja hag þjóðarinnar ógnað án forystu flokksins. Engin rök, einungis sjálfhverf fortíðarþrá.

Sigurður staldrar við nokkra málaflokka án þess að koma með minnstu rök fyrir nauðsyn þess að flokkur hans eflist að fylgi og völdum.

Hann fullyrðir að enginn vilji lækka skatta nema Sjálfstæðisflokkurinn, sem reyndar hækkar skatta þegar hann er við völd, alla vega skatta á allan almenning. Nefna má að í byrjun þessa kjörtímabils hækkaði flokkurinn fjármagnstekjuskatt um einn tíunda. Það kemur meðal annars illa við eldri borgara og venjulegt fólk sem reynir að tryggja hag sinn með þátttöku á fjármálamarkaði, til dæmis með kaupum á hlutabréfum.

Sigurður skrifar um að mikill munur sé á stefnu flokks hans og vinstri flokka þegar kemur að ríkisútgjöldum. Þetta er einfaldlega rangt. Í valdatíð sinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið fyrir stöðugri útþenslu ríkisbáknsins.

Þegar Sigurður var ungur sjálfstæðismaður var slagorð hans og félaga hans: BÁKNIÐ BURT. En nú segja þessir sömu menn, og reyndar fleiri sjálfstæðismenn: BÁKNIÐ KJURRT.

Þegar hann hnýtir í vinstri flokkana ætti hann að muna að í fyrsta skipti í Íslandssögunni situr flokkur hans í vinstri stjórn undir forsæti formanns Sósíalista – það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á brösóttri valdatíð Katrínar og Svandísar.

Mun brýnna er að koma þessari ríkisstjórn frá völdum en að stækka Sjálfstæðisflokkinn úr þeim 20 til 25 prósentum sem hann mælist nú í samkvæmt skoðanakönnunum. Erfitt er að sjá að flokkurinn rísi undir meira fylgi og jafnvel mætti segja að það sé full rausnarlegt.

Skrif Sigurðar um aðra flokka eru vart svaraverð, sumt er bersýnilega sótt í úrelta fimmaurabrandara höfundar Staksteina – sem má muna fífil sinn fegurri!

Þar sem Sigurður er fyrrum sveitarstjórnarmaður í Suðurkjördæmi má benda honum á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú misst völdin í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum og Árborg. Kemur það þó ekki að sök. Þessum sveitarfélögum er öllum vel stjórnað af dugnaði og festu. Án atbeina flokksins hans Sigurðar!

Þetta mætti prófa víðar og gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá landsstjórninni frá og með komandi hausti.

Sólin mun samt halda áfram að koma upp.

- Ólafur Arnarson