Sjálfstæðisflokkurinn er óstjórntækur í kópavogi

Helgin fór í að pína þá óánægðu í röðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við Ármann bæjarstjóra. Það hafðist með herkjum á sunnudagskvöld en hugur fylgir ekki máli.

Þau Margrét Friðriksdóttir, Guðmundur Geirdal og Karen Halldórsdóttir voru beitt ofurþrýstingi af þingmönnum og ráðherrum flokksins til að skrifa undir stuðning við Ármann. Þau létu loks undan en hugur fylgir ekki máli. Ástandið í flokknum er enn rafmagnað í Kópavogi.

Öllum ætti að vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi er óstjórntækur. Aðrir flokkar hljóta að varast samstarf við svo brothættan hóp.

Eini flokkurinn sem hugsanlega gæti unnið með þeim er Framsókn með sinn eina bæjarfulltrúa, Birki Jón Jónsson. Taki hann þá áhættu að vinna með Sjálfstæðisflokknum hlýtur hann að krefjast þess að verða bæjarstjóri með 2.6 milljónir á mánuði sem frægt er. Framsóknarflokkurinn tapaði 30.5% af fylgi sínu í Kópavogi frá 2014. Hann fór úr 11.75% í 8.17%.

Þrátt fyrir þetta mikla fylgishrun Framsóknar er Birkir Jón í þeirri lykilstöðu að geta ráðið því hvort hann myndar meirihluta í Kópavogi með Samfylkingu, Pírötum og BF-Viðreisn þar sem hann yrði bæjarstjóri eða með báðum örmum Sjálfstæðisflokksins þar sem hann hlyti einnig að geta krafist bæjarstjórastólsins.

Verði myndaður meirihluti Birkis Jóns og Sjálfstæðisflokkanna beggja, þá má gera ráð fyrir falli þess meirihluta fyrr en seinna á kjörtímabilinu.

Sporin frá Reykjavík 2006 til 2010 hræða. Þá sátu samtals fjórir borgarstjórar.

Rtá.