Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að slá skjaldborg um Klausturþingmennina sem hneykslað hafa þjóðina upp úr skónum. Atburðir dagsins gætu átt eftir að draga dilk á eftir sér. Sjálfstæðisflokkurinn hefur myndað bandalag við Miðflokkinn og helming leifanna af Flokki fólksins um að gera Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokks, að formanni Samgöngunefndar þingsins. Ljóst var að Bergþór Ólason gæti ekki setið þar á formannsstóli áfram enda rúinn trausti. Samkvæmt víðtæku samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu tilheyrir formennska í þessari nefnd stjórnarandstöðunni. Þess vegna er það ankannalegt að Jón Gunnarsson hafi náð að hrifsa til sín þetta embætti því ekkert bendir til þess að hann sé genginn í stjórnarandstöðuna þó hann hafi verið fúll yfir því að missa ráðherrastól sinn við myndun þessarar ríkisstjórnar.
Að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gangi til samstarfs við þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins sem urðu sér til skammar á Klausturbar sem frægt er, bendir til þess að þeim þyki ekkert athugavert við framkomu þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn er að hvítþvo þá af þessu máli og það hlýtur að teljast merkilegt. Miðað við hvernig almenningsálitið í landinu hefur dæmt þessa menn þarf ekki að gera ráð fyrir öðru en því að Sjálfstæðisflokkurinn muni enn tapa fylgi með þessari afstöðu. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum er fylgi flokksins komið niður undir 20% og virðist vera að festast þar. Ekki eru nema 12 ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn fékk 37% atkvæða í þingkosningum þegar Geir Haarde var formaður flokksins. Miðað við þá fylgisþróun sem síðan hefur verið, eða öllu heldur fylgishrun, hefði mátt ætla að flokkurinn teldi sig varla aflögufæran með fylgi en bandalag við Klausturþingmenn gæti valdið enn frekara tjóni.
Einnig er hægt að velta því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn er að bjóða Bergþóri Ólasyni og öðrum Miðflokksmönnum til sín ásamt brottflúnum þingmönnum Flokks fólksins þeim Karli Gauta Hjartarsyni og Ólafi Ísleifssyni. Það er ekkert svo fjarlægt því bæði Bergþór og Ólafur voru forystumenn í Sjálfstæðisflokknum á yngri árum. Bergþór var m.a. aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og hann tókeinnig þátt í prófkjörum flokksins án mikils árangurs.
Sjálfstæðisflokkurinn þjáist auðvitað vegna þess að þingflokkur hans er nú þynnri en áður hefur gerst. Einungis 16 þingmenn. En velji flokkurinn að ganga í Klaustur með Klausturdónunum þá yrði sú liðveisla dýru verði keypt. Kjósendur myndu refsa flokknum grimmilega við fyrsta tækifæri.