Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson er þessa dagana á norðurslóðaráðstefnu, International Arctic Forum, í Pétursborg í Rússlandi. Guðni vakti mikla lukku í dag þegar hann ávarpaði gesti á rússnesku.
Rússneska sendiráðið hefur birt myndskeið af Guðna og óhætt að segja að ræða forseta Íslands hafi vakið mikla lukku. Guðni baðst afsökunar á að hann talaði ekki rússnesku nægilega vel, þrátt fyrir að hafa reynt að læra málið í nokkurn tíma. Þá sagði Guðni:
„En ég vil koma einu atriði á framfæri og mig langar að segja eftirfarandi: Ekkert er eins mikilvægt hér á jörðu og sönn vinátta.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðni slær í gegn með því að tala erfið erlend tungumál. Árið 2017 vakti kveðja Guðna á finnsku mikla athygli í tilefni þess að hundrað ár voru þá frá því að Finnland öðlaðist sjálfstæði.