Sirrý ræðir við fólk með félagsfælni

Fólk sem glímir við félagsfælni og kvíða situr fyrir svörum í þættinum Fólk með Sirrý á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld, en þátturinn er frumsýndur klukkan 20.00.


Meðal gestanna er Magnús Stefánsson trommari úr Utangarðsmönnum og Egó en hann hefur haldið óteljandi fyrirlestra á vegum Marita fræðslunnar. Hann deilir reynslu sinni af því að kvíða alltaf fyrir að koma fram, óttast álit annarra og vilja frekar draga sig inn í skel fyrir framan tölvuna en að koma fram fyrir hópi af fólki. Hann stundar líkamsrækt minnst 30 mínútur á dag að læknisráði til að höndla betur kvíða og félagsfælni. Magnús segir frá reynslu sinni og gefur góð ráð í þættinum. Meðal annars segir hann frá því hve illa honum leið í vinsælum hljómsveitum eins og Egó, Utangarðsmönnum og Stjórninni út af kvíða og félagsfælni. 


Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi hjá Hugarafli sér oft hvað það virkar vel fyrir fólk með kvíða og félagsfælni að horfast í augu við vandann, takast á við hann og mæta áskorunum frekar en að skorast undan. Hún gefur góð ráð í þættinum. 


Aðrir gestir eru Eymundur Eymundsson frá Grófinni á Akureyri. Hann fór á mis við það sem lífið hefur upp á að bjóða í áratugi áður en hann fann hvað var að og tókst á við félagsfælni og kvíða. Í dag læðist hann ekki lengur meðfram veggjum heldur kemur fram á námskeiðum og fyrirlestrum og námskeiðum. Og frá Hugarafli í Reykjavík koma Kristín Garðarsdóttir og Sigrún halla Tryggvadóttir. 


Í lok þáttar kynnir Sirrý gjafaleik þar sem fólk er hvatt til að senda inn tilnefningar og sögur af fólki sem það vill gleðja og á skilið að fá glæsileg sængurföt frá LÍN design. Tilnefningar óskast á [email protected]


Smelltu til að horfa á þátt og klippur.