Sirrý með fjárhagsáhyggjur í kvöld

Fjárhagsáhyggjur almennings eru til umfjöllunar í þættinum Fólk með Sirrý klukkan 20.00 í kvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Fáir viðurkenna opinberlega að þeir eigi erfitt með að ná endum saman, en það er engu að síður veruleiki flestra eins og fram kemur í þættinum.


Björn Róbert Jensson, einn gesta Sirrýjar segir m.a. frá því hvernig hann rak sig á veggi þegar hann var ungur, skuldugur og í fjárhagsvanda eftir dýrt nám sem hann fékk ekki vinnu við. Hann snéri sér til lögfræðinga en þeir virtust ekki hafa áhuga á að aðstoða hann í fjárhagsvanda svo vandinn bara jókst. Hann tók málin í sínar hendur, menntaði sig í viðskiptafræði og aðstoðar nú fólk að takast á við fjármálin og semja við skuldunauta. Fyrirtækið heitir Stopp.is og er nóg að gera. Í þættinum kom fram að Umboðsmaður skuldara,Ásta S. Helgadóttir fagnar því að fleiri aðilar séu komnir á markaðinn að aðstoða fólk í fjárhagsvanda því erfitt getur verið að semja við skuldunauta.


Fjöldi annarra gesta prýðir þáttinn sem er 50 mínútna langur og öllum aðgengilegur á netinu, í heild sinni og að hluta.