„ég settist á gólfið og hágrét“ - símtalið sem bryndís mun aldrei gleyma: „hann getur ekki verið farinn“

Föstudaginn 28 .mars árið 2003 fékk Bryndís Steinunn símtal frá vinkonu sinni sem hún mun aldrei gleyma. Besti vinur hennar Jóhannes Sigurðsson hafði látist í alvarlegu bílslysi á Reykjanesbraut fyrr um morguninn.

„Vá hvað ég varð reið út í hana að vera að ljúga svona að mér. Setningar eins og; „Hann var ekki í bílnum, hann getur ekki verið farinn,“ komu upp úr mér. Ég í raun fékk taugaáfall og ég settist á gólfið í vinnunni með vinnusímann í höndunum og hágrét. Ég var svo niðurbrotin að hringt var í mömmu mína sem kom og fór með mig heim,“ segir Bryndís í einlægri minningargrein sem hún skrifaði á Amare og gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um.

Féll strax fyrir persónuleikanum

Jóhannes eða Jói eins og Bryndís kallaði hann ávallt hafði mikil áhrif á líf hennar frá fyrstu kynnum.

„Í fyrsta skiptið sem ég hitti Jóa féll ég kolflöt fyrir honum. Ég varð ekki rómantískt ástfangin, ég varð ástfangin af persónunni. Ég man aldrei eftir að hafa séð hann reiðan eða í fílu. Í hvert skipti sem við hittumst var bros á vör og gleði í kringum hann,“ segir Bryndís sem mun aldrei gleyma minningu vinar síns.

Segir Bryndís að Jói hafa haft þann eiginleika að þegar hann talaði við fólk hafi upplifunin ávallt verið sú að sá einstaklingur skipti öllu máli. Honum hafi alltaf tekist að láta alla finnast þeir vera mikilvægir og að hann hafi verið sérstaklega uppátækjasamur.

Bryndís segir einnig frá því að Jói hafi flutt til Bandaríkjanna og starfað þar sem kokkur fyrir fræga fólkið sem bjó á Miami. Þar hafi hann kynnst Valeriu sem síðar varð konan hans.

„Þegar þau svo ákváðu að flytja aftur heim til Íslands var spennan hjá okkur vinunum svo mikil að við mættum klukkan 6 um morguninn heim til mömmu hans með bakkelsi og kaffi,“ segir Bryndís.

Stóð ógn af kærustunni

Þegar Jói og Valeria fluttu heim segir Bryndís að henni hafi staðið örlítil ógn af henni til þess að byrja með.

„Mér stóð svolítil ógn af Valeriu enda er hún fyrrverandi ungfrú Brasilía, hávaxin, grönn og gullfalleg. Ég var viss um að hún væri algjör t.. en mér til mikillar undrunar þá hugsaði hún það sama um mig. Fyrir henni var ég ógn því hann talaði svo oft um mig og hvað hann elskaði mig mikið. Hennar orð voru: „Ég gjörsamlega hataði þig en núna eftir að ég hef hitt þig skil ég af hverju hann elskar þig svona mikið. Ég elska það þegar maður hefur rangt fyrir sér í þessum málum.“

Minnist Bryndís þess tíma sem vinirnir fengu að vita að Valeria væri orðin barnshafandi og hamingja umlukti vinahópinn. Segir hún parið síðan hafa farið saman til Brasilíu til þess að heimsækja fjölskyldu Valeriu og gifta sig.

„Jói kom svo heim á undan henni vegna vinnu en hún var áfram hjá fjölskyldunni sinni með litlu dótturina og soninn sem hún átti fyrir. Það var í Janúar 2003 sem við hittumst í sumarbústað þar sem bæði Jói og Jónas vinur hans héldu upp á 25 ára afmælið sitt. Vá það var svo gaman.  Allir voru töluvert í glasi og rosa gaman og við Jói fórum í smá þræting um hvort okkar elskaði hitt meira.

Þetta var síðasta skiptið sem ég hitti Jóa.“

Hefur aldrei komist yfir andlátið

Eins og áður sagði fékk Bryndís fréttirnar um andlát Jóa sama dag og hann lést og fékk í kjölfarið taugaáfall.

„Aftur fékk ég taugaáfall þegar nafn hans og mynd var birt í fréttunum. Þetta varð þá allt í einu svo raunverulegt.“

Jarðarför Jóa var haldinn þann 9. apríl og segir Bryndís það eina erfiðustu jarðarför sem hún hafi upplifað.

„Presturinn sem jarðaði hann þekkti hann og átti erfitt með halda aftur af tárunum. Frændi hans sem var honum eins bróðir sagði kveðjuorð sem tóku á allar frumur líkamans. Við höfðum misst einn skærasta demantinn okkar, yndislegu sálina okkar, dásamlegan vin,“ segir Bryndís sem telur sig aldrei hafa komist yfir andlát hans.

Nefndi barnið sitt eftir honum

„Ég hugsa oft til hans og söknuðurinn er enn til staðar. Ég veit að við hittumst aftur og held fast í þá von. En núna sefur hann og hvílist til að geta verið í góðu formi til að bralla einhverja vitleysu með mér þegar við hittumst aftur.

Já ég elskaði Jóa, elskaði hann svo mikið að þegar ég komst að því mánuði eftir að hann lést að ég væri ófrísk kom bara eitt nafn til greina ef þetta yrði strákur enda heitir sonur minn Jóhannes eftir dásamlegum vini sem var ófeiminn að segja manni að hann elskaði mann og ófeiminn við að láta manni líða eins og mikilvægasta persóna í heiminum.“

Eftir rannsókn á slysi Jóa segir Bryndís að í ljós hafi komið að akstursskilyrði hafa ekki verið góð. Mikil rigning var og vegurinn svo háll að Jói missti stjórn á bíl sínum og endaði fyrst á fólksbíl og svo á öðrum bíl. Tveir hafi látist í slysinu og einn slasast alvarlega.

„Elsku vinir, kunningjar og allir þarna úti, keyrið varlega, notið bílbelti, ekki vera í símanum eða undir áhrifum því það þarf ekki mikið til að eitthvað gerist. Dauði eins hefur áhrif á svo marga og sárin eru svo djúp að þau gróa aldrei að fullu.

\"\"

„Mig langar að láta fylgja mynd sem ég tók af strákunum mínum. Elska þá báða svo mikið.“